-0.5 C
Selfoss

Breytingar á þjónustu heilsugæslunnar á Selfossi

Vinsælast

Fyrsta febrúar næstkomandi verða breytingar á fyrirkomulagi þjónustu heilsugæslustöðvarinnar á Selfossi. Verkefni heilsugæslunnar á undanförnum árum hafa aukist mikið og bið eftir tíma til læknis hefur verið löng. Notendur þjónustunnar hafa stundum þurft að bíða vikum saman eftir tíma hjá lækni og oft liggur ekki fyrir hvert erindið er fyrr en í tímann er komið. Stundum kemur þá í ljós að viðkomandi erindi hefði átt að sinna fyrr eða þá að það sé þess eðlis að einhver annar hefði geta sinnt því og þá mun fyrr. Önnur afleiðing af mikilli bið á heilsugæslunni hefur verið sú þróun að fólk leitar meira í bráðaþjónustuúrræði.

Teymisvinna

Tekin verður upp teymisvinna lækna, hjúkrunarfræðinga og annarra starfsmanna en tilgangur hennar er að forgangsraða og dreifa verkefnum á þann fagaðila sem er hæfastur eða best fallinn til að sinna þeim hverju sinni.

Hjúkrunarstýrð móttaka

Móttakan verður hjúkrunarstýrð. Þeir sem þurfa á tíma að halda hringja inn í móttöku HSU og fá samdægurs símatíma hjá hjúkrunarfræðingi í viðkomandi teymi. Hjúkrunarfræðingur hringir síðan samdægurs eða í síðasta lagi næsta morgun tilbaka og fær upplýsingar um erindið. Með þessu móti er hægt að forgangsraða vandamálum sem er afar mikilvægt en einnig gefst kostur á því að leysa minna aðkallandi vandamál eða spurningar með ráðgjöf ásamt því að hjúkrunarfræðingar verða einnig með móttöku. Þeir sem þurfa að hitta lækni fá tíma sem hjúkrunarfræðingur bókar en slíkir tímir geta verið samdægurs eða seinna allt eftir því um hvað málið snýst. Þarna gefst líka tækifæri til þess að undirbúa komuna, t.d. með því að panta rannsóknir sem eru þá tilbúnar við komu til læknis.

Með þessum breytingum nýtast starfskraftar lækna og hjúkrunarfræðinga mun betur og notendur þjónustunnar fá strax afgreiðslu á sínum erindum, ásamt því að undirbúningur verður betri og afgreiðsla á rannsóknarniðurstöðum verður skilvirkari.

Við biðjum íbúa um að sýna því skilning að það tekur tíma að koma svona breytingu á og við vitum að í byrjun mun vafalítið þurfa að bregðast við ófyrirséðum breytum. Eins þarf fólk að venjast því að geta ekki lengur pantað tíma beint hjá lækni. Það verða allir áfram með skráðan heimilislækni en við bætist að nú verða allir í ákveðnu teymi og eiga því að geta leitað til þeirra hjúkrunarfræðinga og lækna sem þar eru. Þetta tryggir að ef einhver starfsmaður er ekki í vinnu að þá eru það hinir í teyminu sem eiga að sinna því erindi.  Undirbúningur hefur staðið lengi og er starfsfólk stöðvarinnar spennt og áhugasamt um að bæta þjónustuna, ásamt því að samvinna allra mun aukast.

F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Arnar Þór Guðmundsson, yfirlæknir heilsugæslustöðinni á Selfossi

Unnur Þormóðsdóttir, hjúkrunarstjóri heilsugæslustöðinni á Selfossi

 

Nýjar fréttir