-4.8 C
Selfoss

Kór ML hlaut Menntaverðlaunum Suðurlands 2018

Vinsælast

Menntaverðlaun Suðurlands 2018 voru afhent í ellefta sinn á hátíðarfundi í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi 10. janúar sl.

Að þessu sinni bárust fjórar tilnefningar til Menntaverðlauna Suðurlands 2018 um verkefni, einstaklinga og/eða stofnanir og eru þau eftirfarandi:

  1. Góðgerðardagar í Sunnulækjarskóla fyrir að stuðla að tengslum skóla og nærsamfélags með því að standa fyrir „góðgerðardögum“ þar sem nemendur selja ýmis verk sem þau hafa unnið í skólanum til styrktar veigamiklum málefnum í nærsamfélagi skólans.
  2. Anna Lára Pálsdóttir kennari fyrir íslenskukennslu í Vík í Mýrdal þar sem hún hefur lagt mikið upp úr því að tengja saman nýbúa og heimamenn.
  3. Leiklistastarf í Flúðaskóla Hrunamannahreppi en þar hafa til fjölda ára verið sett upp ákaflega metnaðarfull leikverk á hverju ári, annarsvegar fyrir yngra- og miðstig, og hins vegar fyrir unglingastig.
  4. Kór Menntaskólans við Laugarvatn og stjórnandi hans Eyrún Jónasdóttir metnaðarfullt kórastarf til fjölda ára og framúrskarandi stjórnun hans.

Úthlutunarnefnd er skipuð af stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga. Í henni voru Ásgerður K. Gylfadóttir og Sigurður Sigursveinsson en auk þess starfaði Ingunn Jónsdóttir fyrir nefndina. Nefndin fjallaði um umsóknirnar og niðurstaða þeirra var að Menntaverðlaun Suðurlands 2018 hlyti kór Menntaskólans að Laugarvatni og stjórnandi hans, Eyrún Jónasdóttir.

Nefndin tekur undir rökstuðning þeirra sem stóðu að tilnefningunni, en þar segir: „Kórastarf á sér langa sögu á Laugarvatni og ber þar helst að nefna kór Héraðsskólans gamla og svo kór Menntaskólans að Laugarvatni. Kór ML hefur verið starfræktur með hléum, mislöngum, frá árinu 1977. Nokkurt hlé myndaðist á starfi kórsins upp úr aldamótum þó leitast hefði verið við að endurreisa það og komu þar að nokkrir stjórnendur. Eyrún Jónasdóttir, núverandi kórstjóri, var ráðin til starfa haustið 2011. Kórastarfið hefur vaxið mjög undir hennar stjórn. Nefna má sem dæmi að síðastliðna tvo vetur hafa um 65% nemenda skólans verið í kórnum. Kóráfangar skólans eru nú einingabærir valáfangar og eru því hluti af námsferli á útskriftarskírteini nýstúdenta. Nú þykir nemendum eftirsóknarvert að vera í kórnum og það er orðinn sjálfsagður og eðlilegur hluti af félagsstarfi skólans. Líklega er það einsdæmi að um 2/3 allra nemenda framhaldskóla séu í kór viðkomandi skóla.

Eyrún Jónasdóttir hefur þá hæfileika og menntun sem skiptir sköpum í starfi stjórnanda kórs í framhaldsskóla. Hún er menntuð söngkona og miðlar góðri raddbeitingu, menntuð í kórstjórn og píanóleik og þekkir úr eigin kórstarfi fjölbreytt verkefni. Hún á gott með að halda uppi jákvæðum aga, þannig að vináttusamband er milli hennar og kórfélaga.“

Forseti Íslands, hr. Guðna Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin og Eyrún Jónasdóttir kórstjóri, Karen Dögg Bryndísar og Karlsdóttir verkefnastjóri kórsins, Guðmundur Heiðar Ágústsson formaður kórsins, Ástráður Unnar Sigurðsson gjaldkeri, Laufey Helga Ragnheiðardóttir ritari og Ljósbrá Loftsdóttir varaformaður veittu þeim viðtöku.

Nýjar fréttir