-6.6 C
Selfoss

Fimmtíu og fjögur góð ár í prentinu að baki

Valdimar Bragason prentsmiður hjá Prentmeti Suðurlands á Selfossi lét af störfum í desember síðastliðnum en hann varð sjötugur á árinu. Valdimar hóf nám í prentun hjá Prentsmiðju Suðurlands haustið 1964 og því spannar starfsferillinn rúm 54 ár.

Valdimar fæddist í Reykjavík en fluttist 5 ára gamall í Hveragerði og bjó þar í tæp tíu ár. Þegar skyldunámi lauk 1963 fluttist hann á Selfoss og hefur búið þar allar götur síðan.

Í viðtali við Valdimar, sem birtist í Dagskránni í tilefni 50 ára starfsafmælisins fyrir fjórum árum, segir hann frá því að hann hafi séð auglýsingu í Ólabúð á Selfossi þar sem auglýst var eftir nema í prentun í Prentsmiðju Suðurlands. Hann sótti um og var ráðinn. Fyrst var hann á reynslutíma, en síðan var undirritaður námssamningur dagsettur 15. nóvember 1964. „Ég tók fyrsta bekkinn í iðnskóla á Selfossi en næstu þrjá bekki í Reykjavík í fagdeildinni við Iðnskólann“, segir Valdi í viðtalinu.

Valdi ræðir aðeins í viðtalinu um prentið eins og það var á þessum tíma. Þar segir hann m.a.: „Á þessum árum var allt öðruvísi umhorfs í prentinu heldur en er í dag, allt unnið í blýi og miklu svifaseinna. Þetta var gjörólíkur heimur því sem er í dag. Á þessum 50 árum hef ég gegnið í gegnum allar þessar breytingar, úr blýinu, sem hafði verið prentaðferðin í 500 ár allt frá því er Gutenberg fann upp prenttæknina, þangað til farið er yfir í pappírsumbrot og síðan í tölvurnar, skref fyrir skref. Nú fer þetta allt orðið fram í tölvum á skjá þar sem maður situr við hin ýmsu forrit og ýtir bara á takka og þar með fer verkið í prentun. Áður fyrr þurfti mörg handtök áður en hægt var að prenta frá það að setjarinn skilaði af sér verkinu. Þá var heilmikið ferli áður en verkið var tilbúið til prentunar. Þetta hefur breyst alveg óhemju mikið. Með blýinu fóru prentplötur að ryðja sér meira og meira til rúms en það var bæði dýrt og óþjált að eiga við þannig að þegar það fór svo yfir í pappírsumbrotið varð strax mikil breyting og svo enn aftur þegar farið var yfir í tölvuumbrotið.“

Valdimar hefur fylgt Dagskránni alveg frá upphafi, en fyrsta tölublaðið kom út í byrjun árs 1968. Um það segir hann í viðtalinu: „Þá var flóð í Ölfusá, man ég, og mikil tilhlökkun að gefa út Dagskrána. Þá var nefnilega sjónvarpið nýkomið hingað á Selfoss og því þurftu allir að vita hvað væri í sjónvarpinu, hvernig dagskráin væri. Dagskrá sjónvarpsins var þannig kveikjan að þessu. Með því fylgdu auglýsingar og svo fóru að koma tilkynningar og smá fréttir til uppfyllingar“. Valdi segir að blaðið hafi þróast hægt og rólega. Fyrst hafi Dagskráin verið í litlu A5 broti, nokkrar síður, eftir því hvað auglýsingarnar voru margar. Síðan hafi það þróast áfram með nýrri prenttækni og því vaxið fiskur um hrygg.

Í yfir fimmtíu ár hefur Valdi meira og minna starfað í prentsmiðjunni á Selfossi. Það hafa orðið eigendaskipti hjá Prentsmiðjunni en hann segist bara alltaf hafa fylgt með eins og hluti af innréttingunum. „Það er bara þakkarefni að hafa fengið að upplifa það allan tímann að fá að vera á einum og sama stað í vinnu. Mér líkar starfið vel og það þýðir þá líka hitt að þá hefur vinnuveitendunum ekki líkað mjög illa við starfskraftinn“, segir Valdi í viðtalinu.

Í gegnum tíðina hefur Valdimar fengist við ýmislegt utan vinnunnar. Má þar nefna skógrækt, ásamt eiginkonu sinni Hafdísi Marvinsdóttur, í sumarbústaðarlandi fjölskyldunnar á Miðhúsum í Gnúpverjahreppi og í garðinum við Heiðarveg á Selfossi. Hann var um tíma virkur í JC-hreyfingunni og hefur um árabil sungið í Karlakór Selfoss. Hann var einnig með þætti í útvarpi bæði hjá svæðisútvarpi Ríkisútvarpsins og Útvarpi Suðurlands. Þá hætti Valdimar um áramótin sem aðstoðarkirkjuvörður hjá Selfossi en því starfi sinnti hann um árabil.

Starfsfólk Dagskrárinnar og Prentmets þakkar Valdimari fyrir ánægjulegt samstarf á liðnum árum og óskar honum velfarnaðar í því sem hann nú tekur sér fyrir hendur.

Valdimar ásamt Ingibjörgu Steinunni og Guðmundi Ragnari, eigendum Prentmets. Mynd: GPP.
Valdimar ásamt Ingibjörgu Steinunni og Guðmundi Ragnari, eigendum Prentmets. Mynd: GPP.

Fleiri myndbönd