-5.5 C
Selfoss

Afmælisár Kvenfélags Grímsneshrepps – 100 ár í þágu samfélagsins

Vinsælast

Það eru mikil tímamót hjá Kvenfélagi Grímsneshrepps á árinu 2019. Félagið fagnar 100 ára afmæli sínu þann 24. apríl. Í tilefni afmælisins er ýmislegt á döfinni hjá Kvenfélaginu. Blaðamaður hitti að máli Laufeyju Guðmundsdóttur sem er formaður Kvenfélags Grímsneshrepps og forvitnaðist aðeins um starfið og hvað árið ber í skauti sér.

Málþing um stöðu félagasamtaka í nútímanum

„Það er auðvitað heilmikið búið að liggja yfir því hvað á að gera á afmælisárinu til að fagna þessum merka áfanga. Meðal viðburða er málþing sem haldið verður nú í mars þar sem rædd verður staða frjálsra félagasamtaka í samfélaginu. Við erum í óða önn að safna góðu fólki sem flytur erindi á málþinginu. Það er áhugavert að velta þeirri spurningu upp, þegar vegalengdir hafa styst og afþreyingin fjölbreyttari hvort að það sé jafn mikil þörf fyrir félagsstarf í nærsamfélaginu. Í grunninn munum við ræða stöðu félagasamtaka eins og kvenfélaga, björgunarsveita og Lions svo dæmi sé tekið. Við skoðum gildi þeirra fyrir samfélagið sitt og hvort þau skipti jafn miklu máli nú og áður. Hafa þau jafn mikið gildi og áður? „Í mínum huga eru svona samtök það sem hefur búið til sterkara samfélag á minni stöðum. Þau standa sterk og hafa ótal marga og mikilvæga snertifleti við samfélagið enn í dag.“

Breytingar á áherslum í tímans rás

„Það hafa orðið heilmiklar breytingar á starfi kvenfélaga í gegnum tímann. Hér áður fyrr var áherslan að koma af stað sundkennslu, skikki á heilbrigðismál eins og það að fá ljósmóður til starfa, afskipti af skólamálum og í raun leggja grunn að að því samfélagi sem við þekkjum í dag. Nú er áherslan hjá okkur aðeins breytt. Við styrkjum auðvitað sjúkrahúsið og ýmis samfélagsverkefni og það breytist lítið. Hinsvegar erum við líka farnar að halda úti viðburðum fyrir nærsamfélagið okkar eins og Grímsævintýri. Þar er kominn staður þar sem fólkið í sveitinni hittist ásamt fleira fólki. Við höldum lífi í sveitinni og sköpum tækifæri til að hittast og búa minningar saman.

Saga kvenfélagsins er saga öflugra kvenna í Grímsneshreppi

­„Hluti af því sem við ætlum að gera nú á þessum tímamótum er að gefa út sögu Kvenfélags Grímsneshrepps. Saga Grímsneshrepps hefur komið út, en hlutur konunnar er ekki í forgrunni þar þó hún sé ekki síður merkileg en annað sem þar stendur. Með því að skrifa þessa sögu getum við dregið fram allt sem þessar öflugu konur, sem hafa farið í gegnum Kvenfélagið, hafa áorkað samfélaginu til hagsbóta. Sú sem ritar söguna heitir Margrét Sveinbjarnardóttir frá Heiðarbæ í Þingvallarsveit. Það er mikill happafengur að fá hana í verkefnið. Margrét er flestum hnútum kunnug hér enda var hún sjálf í Ljósafossskóla og þekkir vel til hér á svæðinu. Þá er hún með menntunina til að halda utan um svona verkefni. Er bókin komin af stað? Já, við erum komnar á fullt í að fara yfir heimildir, fundagerðabækur og annað sem við náum í. Stofugólfið hjá mér var undirlagt hér um daginn. Verkefnið er komið á rekspöl og við hlökkum ákaflega mikið til að vinda því áfram.

Nýjar fréttir