Forsvarsmenn Foreldrafélags Vallaskóla komu færandi hendi sl. þriðjudag og færðu öllum krökkum í 1. bekk Vallaskóla á Selfossi endurskinsvesti með nafni og merki skólans, að gjöf. Með í för voru fulltrúar frá lögreglunni á Suðurlandi sem fræddu börnin um mikilvægi þess að nota vestin.
Í tilkynningu frá Foreldrafélaginu segir: „Það er von okkar í stjórn Foreldrafélagsins að þessi vesti komi til með að nýtast nemendum vel nú í skammdeginu. Eins og lögreglan kom inn á í fræðslu sinni þá eru mun meiri líkur að börn sjáist í umferðinni séu þau klædd í svona vesti. Einnig er vert að benda á að skólalóðin er á sumum stöðum talsvert dimm og umferð á morgnana mikil, sér í lagi fyrir utan deildina hjá yngstu börnunum við Tryggvagötu. Það mætti gjarna lagfæra það af hálfu sveitarfélagsins. Alltént er þetta skref að útvega vesti til að auka sýnileika liður í því að minnka hættu á slysum.“