1.7 C
Selfoss
Home Fastir liðir Heilablóðfall

Heilablóðfall

0
Heilablóðfall
Halla Arnfríður Grétarsdóttir, hjúkrunarfræðingur bráðamóttöku.

Heilablóðfall/heilaslag eða „Stroke“ er skilgreint sem skaði á heilavef vegna blóðleysis sem verður þegar æð lokast eða rofnar. Í báðum tilfellum getur orðið skaði á taugafrumum vegna súrefnisskorts og skorts á öðrum næringarefnum. Ef langur tími líður þar til blóðflæði kemst aftur af stað, deyr hluti taugafrumanna og starfsemi annarra raskast.

Einkenni heilablóðfalls geta varað í lengri eða skemmri tíma. Helstu einkenni eru meðal annars lömun, tjáskiptavandamál, skert sjón, persónuleikabreytingar og skyntruflanir. Einkenni ráðast af því hversu mikil og hvar í heilanum skemmdin er.

Forvarnir eru mikilvægar en sumum áhættuþáttum er hægt að breyta en öðrum ekki. Helstu áhættuþættir sem ekki er hægt að breyta eru aldur, kyn (karlar fá oftar heilablóðfall en konur), ættarsaga og fyrri saga um heilablóðfall. Áhættuþættir sem hægt er að breyta eða hafa áhrif á eru meðal annars háþrýstingur, reykingar, hjartaflökt, offita, kyrrseta, sykursýki og streita.

Mikilvægt er að þeir sem veikjast komist sem fyrst undir læknishendur. Fyrstu klukkutímarnir frá því að einkenna verður fyrst vart geta skipt sköpum varðandi læknismeðferð og áhrif hennar. Því þarf sjúklingur að komast innan 4,5 klukkustunda frá fyrstu einkennum. Því er mikilvægt að kunna að bera kennsl á einkenni heilaslags.

Hægt er að beita þrem einföldum ráðum til að bera kennsl á heilaslag:

Biðja einstakling að brosa – Fylgir hluti andlits ekki brosinu? Er andlitið ósamhverft þegar reynt er að brosa?

Biðja einstakling að lyfta höndum – Þegar báðum handleggjum er lyft og haldið útréttum, leitar þá annar handleggurinn niður á við ?

Biðja einstakling um að mynda setningu – Nær einstaklingurinn að mynda einfaldar settningar eins og „Það er gott veður úti”? Er einstaklingurinn þvoglumæltur?

Ef viðkomandi á í erfiðleikum með eitthvert þessara ofantaldra atriða, hringið þá strax í 112 eftir aðstoð og lýsið einkennum sjúklings.

F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Halla Arnfríður Grétarsdóttir, hjúkrunarfræðingur bráðamóttöku.