3.9 C
Selfoss
Home Fréttir Skiptar skoðanir um alþjóðaflugvöll í Árborg

Skiptar skoðanir um alþjóðaflugvöll í Árborg

0
Skiptar skoðanir um alþjóðaflugvöll í Árborg

Eftir að fréttir fóru að berast um alþjóðaflugvöll niður við Stokkseyri hafa íbúar Árborgar skeggrætt möguleikann á kaffistofum og íbúasíðum í sveitarfélaginu. Það er ljóst að sitt sýnist hverjum. Mörgum finnst verkefnið kærkomið meðan öðrum hrýs hugur við þotugný og umferð. Dfs.is kynnti sér nokkur ummæli sem látin hafa verið falla um málið:

Sumir láta sér nægja að hafa þetta stutt og laggott; „Mér finnst þetta frábær hugmynd.“ “Algerlega glórulaus hugmynd.“ „Við verðum dauð áður en af þessu verður, segir einn.“

Aðrir hafa meira um málið að segja; „Einhver benti mjög viturlega á að það væri betri staður – út frá jarðvegsskiptum – að það væri ódýrara að hafa þetta vestan við Þorlákshöfn.“

Svo hugsa aðrir um mófugla og dýraríkið sem þrífst í mýrinni sem kann að verða fyrir hnjaski verði flugvöllurinn að veruleika.

Þá bendir einn á að íbúar á Reykjanesi hafi löngum búið við flugvöllinn og ekki sé teljandi hávaði eða mengun en sá hinn sami bjó mjög skammt frá Keflavíkurflugvelli.

Alltént eru heilmiklar skoðanir á málinu og ljóst að það verður ekki krufið til mergjar hér. Að því sögðu er ljóst að málin verða nú könnuð og niðurstöðum skilað þannig að hægt er að mynda sér upplýsta skoðun um málið þegar þeirri vinnu lýkur.