Laugardagskvöldið 26. janúar nk. verður hið árlega Selfossþorrablót haldið í íþróttahúsi Vallaskóla á Selfossi. Er þetta í 18. skipti sem blótið er haldið. Fjölbreytt dagskrá verður í boði að venju. Í ár verður sérstakt ákall til allra nýbúa á svæðinu í að mæta á blót, en blótið er kjörið tækifæri til að kynnast bæjarbúum.
Miðasala á blótið og ballið fer fram 4.–24. janúar í Galleri Ozone Selfossi og á tix.is. Miðaverð á blótið og ballið er 7.200 kr. Sérstakt forsölutilboð verður 4. til 11. janúar á aðeins 6.800 kr. Allar nánari upplýsingar um blótið má finna á fésbókarsíðu blótssins undir „Selfossþorrablót“.
Allir eru velkomnir á 18. Selfossþorrablótið og hvattir til að hressa upp á bæjarbraginn.