1.7 C
Selfoss
Home Fréttir Aftaka lýðræðis í Ásahreppi

Aftaka lýðræðis í Ásahreppi

0
Aftaka lýðræðis í Ásahreppi
Elín Grétarsdóttir.

Á desemberfundi hreppsnefndar Ásahrepps var endurskipað í nefndir, stjórnir og ráð. Ástæða þess var sú að eftir fyrsta fund hreppsnefndar í júní sl. sendi fulltrúi E-lista Einingar í Ásahreppi ábendingu til Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis þess efnis að fulltrúar L-lista Áhugafólks um lausnir og betra samfélag í Ásahreppi sýndu engan samstarfsvilja við skipan í nefndir og ráð á vegum hreppsins í upphafi kjörtímabilsins.

Í svari ráðuneytis var ábending E-lista staðfest. Meirihluti, L-listi, hafði við skipan í nefndir, stjórnir og ráð sveitarfélagsins ekki farið eftir almennum sveitarstjórnarlögum þegar þau tilnefndu og skipuðu fólk í nefndir án þess að gefa E-lista, minnihluta með 42% kosningu, möguleika á að ráða hvað fólki það ráðstafaði sem fulltrúa sína í nefndir, stjórnir eða ráð að mestu leiti. Einnig var minnihluta, E-lista, ekki úthlutað manni í allar þriggja manna nefndir sveitarfélagsins.

Þegar kom að nefndum þar sem einn fulltrúi situr fyrir hönd Ásahrepps skipaði meirihluti fulltrúa fyrir hönd beggja lista. Fyrir júnífundinn hafði oddviti L-listans aðeins samband við einn mann af tíu á E-lista. Aðrir fulltrúar E-lista sem voru tilnefndir og síðan skipaðir af meirihluta fengu ekki val, enda var það gert að þeim forspurðum. Meirhluti L-lista útilokaði reynslumikið fólk úr fyrri hreppsnefnd sem skipuðu þó þrjú af fjórum efstu sætum listans.

Eftir að svarbréf barst frá ráðuneytinu lagði oddviti Ásahrepps, L-lista maður sem hélt uppi umræðu um virkt lýðræði í kosningarbaráttunni, fram bókun á síðasta fundi hreppsnefndar þar sem hann fagnaði niðurstöðu bréfsins. Tók ekkert neikvætt til sín en virtist fá gleðiglampa í augun þegar hann benti á að í bréfi ráðuneytis væri vísað í þá almennu reglu að meirihluti ætti að skipa 1-3-5 menn í nefndir en minnihluti 2 og 4.

Oddvitar listanna funduðu ásamt sveitarstjóra til að fjalla um bréfið og um skipan í nefndir. Þeim klukkutíma hefði mátt verja í eitthvað viturlegra þar sem meirihluti, L-listi, bauð tvo slæma valkosti. Fyrsta val var að hafa nefndarskipan óbreytta, sem þýddi fyrir E-lista að L-listi raðaði fólki beggja lista í nefndir og hleypti engum að sem þeim ekki þóknaðist. Seinni kosturinn var að meirihluti, L-listi, færi eftir almennu reglunni og tækju allar nefndir, ráð og stjórnir. Oddviti E-lista hafnaði þeim brauðmolum sem fyrri valkosturinn var, því á þessu rúma hálfa ári sem unnið var eftir þeirri nefndarskipan hafði það sýnt sig að varamaður var ekki boðaður þegar hann var frá minnihluta, E-lista, þó aðalmaður frá meirihluta, L-lista, kæmist ekki á fund. Tillögum E-lista var alfarið hafnað.

Ný nefndarskipan frá 19.12. 2018 útilokar E-lista frá 17 nefndum og ráðum á vegum Ásahrepps. E-listi hefur á að skipa tvo af fimm hreppsnefndarmönnum og átta aðra öfluga, velmenntaða einstaklinga með víðtæka reynslu. Fulltrúar E-lista telja þetta vera atlögu að lýðræði og bera vott um fádæma valdníðslu sem ekki þekkist í nágrannasveitarfélögunum og þó víðar væri leitað. Til að mynda hefur E-listi ekki fulltrúa í Odda bs sem sér um rekstur leik- og grunnskóla tveggja sveitarfélaga, og hefur meirihluti, L-listi, ekki borið sig eftir að minnihluti Ásahrepps fái þar áheyrendafulltrúa. Vonandi stendur það nú til bóta.

Stefnt er að íbúafundi þann 12. janúar næstkomandi. Fróðlegt verður að heyra hvort íbúar hreppsins hafa tekið upplýsta afstöðu til þessarar uppröðunar í nefndir, stjórnir og ráð. Líka hvort íbúar séu búnir að skoða samþykkta fjárhagsáætlun hreppsins fyrir 2019–2020 og telji þörf á að eyða fjármunum hreppsins í hátt starfshlutfall og um leið há laun til oddvita þegar litið er til þess að ekki er svigrún innan áætlunarinnar um nein stór verkefni á næstu misserum sem ætla mætti að oddviti þyrfti að hafa afskipti af. Það væri skemmtileg en óvænt ánægja ef oddviti boði lækkun á starfshlutfalli í takt við þau verkefni sem framundan eru, sem nýjársgjöf til okkar hreppsbúa.

Elín Grétarsdóttir, Riddaragarði
Í fyrsta sæti E-lista Einingar í Ásahreppi.