-6 C
Selfoss
Home Fréttir Járnkarlar í leikskólum

Járnkarlar í leikskólum

0
Járnkarlar í leikskólum

Karlar eru tæp 2% leikskólakennara hér á landi. Hefur ýmislegt verið reynt í gegnum tíðina til að fjölga þeim, án þess að það hafi skilað tilætluðum árangri. Járnkarlarnir hafa einsett sér að snúa þessari þróun við.

Staða karla innan leikskólans varð til þess, að Samband íslenskra sveitarfélaga, Félag leikskólakennara, Félag stjórnenda leikskóla, Kennaradeild Háskólans á Akureyri og Menntavísindasvið Háskóla Íslands fóru vorið 2017 af stað með verkefni sem er ætlað að vekja athygli ungra karla á starfi leikskólakennara og að fjölga karlmönnum í því starfi.

Hlutu þessir samstarfsaðilar styrk úr Jafnréttissjóði Íslands til að vinna að verkefninu og voru tveir nemar á meistarastigi í leikskólakennarafræði við Háskólann á Akureyri ráðnir verkefnisstjórar, þeir Eysteinn Sindri Elvarsson og Magnús Hilmar Felixson.

Eysteinn og Magnús hafa haldið úti kynningum á samfélagsmiðlunum Snapchat, Facebook, Instagram og Twitter undir yfirskriftinni Járnkarlarnir, þar sem leikskólastarfið er kynnt á fjölbreyttan, lifandi og fræðandi hátt. Hafa Járnkarlarnir náð yfir þúsund fylgjendum á þessum miðlum.

Þá hafa Járnkarlarnir einnig tekið þátt í kynningum á Háskóladeginum, Háskólaherminum, Starfamessu Norðurlands og í framhaldsskólum. Fyrirhugaðar eru frekari kynningar í efstu bekkjum grunnskólans og í framhaldsskólum.