Nýjir rekstraraðilar hafa tekið við kaffihúsinu Gimli á Stokkseyri. Formlega var opnað að nýju þann 14. nóvember sl. Að sögn Elínar Daggar Haraldsóttur, eiganda kaffihússins, eru helstu áherslurnar: „Crépes pönnukökur með alls konar fyllingum til dæmis kjúklinga eða pepperóní. Þá er ég einnig með eftirréttar-crépes með nutella sem dæmi. Svo er þetta hefðbundna meðlæti eins og kökur og þess háttar. Einnig er hægt að koma og fá sér einn kaldann á krana fyrir þá sem það vilja. Ég er svo líka að leggja upp úr því að hafa hóflegt verð.“
Hvað varð til þess að þú ákvaðst að opna kaffihús? „Þetta hefur alveg verið draumur hjá mér í svolítinn tíma. Þetta var svo auglýst núna í haust og ég sótti um ásamt góðu fólki að fá að vera með rekstur hér. Þetta varð svo heilmikil breyting hjá mér og okkur litlu fjölskyldunni, en maður verður að taka áhættu í lífinu og ekki alltaf bara búa inni í rammanum.“
Hvernig hefur þessu verið tekið af heimafólki? „Þessu hefur verið mjög vel tekið. Allir rosalega ánægðir með þetta. Til dæmis var hér smá húllum-hæ um síðustu helgi. Það var boðið upp á eggjapúns og jólaglögg. Einum bæjarbúanum datt svo í hug að vera með ljótu jólapeysukeppni. Það var setið í öllum sætum og allir í ljótum jólapeysum með glögg, eggjapúns og bjór. Alveg stórskemmtilegt kvöld.“
Hver er framtíðarmúsíkin? „Við erum alla vega að horfa á að þjónusta heimafólkið vel. Ferðamaðurinn er svo bónus. Það er dýrt að taka leigubíla á milli og þannig. Okkur langar að hafa eitthvað hér fyrir samfélagið. Einhvern stað til að hittaðst og hafa það gott saman. Svo er ég að spá í að setja upp skjá hér til að horfa á Enska boltann. Þá er hægt að rölta hingað og horfa á boltann saman. Ég yrði svo með eitthvað nasl með því.“