Fyrsta viðureign Fjölbrautaskóla Suðurlands í Gettu betur, spurningakeppni framhaldsskólanna, árið 2019 fer fram mánudaginn 7. janúar kl. 20 gegn Menntaskólanum á Egilsstöðum. Keppninni verður útvarpað beint á Rás 2 og er áhugasömum bent á þann möguleika að mæta í Útvarpshúsið við Efstaleiti og hvetja liðið til dáða.
Sex manna æfingahópur var settur saman í nóvember eftir langt inntökuferli og hefur æft af kappi síðan þá. Úr þessum hópi var endanlegt lið valið, en það er skipað þeim Sólmundi Magnúsi Sigurðarsyni, Svavari Daðasyni og Guðnýju Von Jóhannesdóttur. Þjálfarar liðsins eru Stefán Hannesson og Jakob Heimir Burgel, og þeim til aðstoðar eru Hrafnhildur Hallgrímsdóttir og Hannes Stefánsson.