-0.5 C
Selfoss
Home Fréttir Samningar í höfn um almenningssamgöngur á Suðurlandi

Samningar í höfn um almenningssamgöngur á Suðurlandi

0
Samningar í höfn um almenningssamgöngur á Suðurlandi
Mynd: dfs.is.

Allt fram í desember sl. voru samningar, milli SASS og Vegagerðarinnar, um almenningssamgöngur í járnum. Sá möguleiki var uppi á borðum að almenningssamgöngur í núverandi mynd breyttust verulega. Viðræður milli SASS og Vegagerðarinnar hafa staðið yfir og málin hafa farsællega verið til lykta leidd. Á síðasta stjórnarfundi SASS kynntu formaður og framkvæmdastjóri stöðu viðræðna. Fram kemur að: „Í viðræðunum hafi rík áhersla verið lögð á að ríkið geri upp tap af rekstri almenningssamgangna til loka árs 2018 og að staðinn væri vörður um núverandi leiðarkerfi á Suðurlandi. Loks að reynt yrði að leita allra annarra leiða en fækka ferðum til að reksturinn á komandi ári verði hallalaus.“

Í samtali við Evu Björk Harðardóttur, formann SASS, um málið segir hún: „Aðalatriðið er að við fögnum því að samningar um almenningssamgöngur eru í höfn fyrir 2019. Það er geysilega dýrmætt fyrir byggðaþróun á Suðurlandi að ná að halda þessari þjónustu áfram í nærþjónustu sveitarfélaganna. Nú er komið svigrúm til að endurskoða almenningsamgangnakerfið í heild sinni fyrir árið 2020 og það þarf að nýta þetta ár vel í það.“

Fækkað um tvær ferðir í viku

Tekist hefur að halda nánast óbreyttu þjónustustigi. Samkvæmt fundargerðinni eru felldar niður tvær ferðir í viku á leið 73. Ferðirnar sem falla niður eru á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 18. Fram kemur að fáir nýti sér þá leið á þessum tíma. Leið 73 ekur; Selfoss – Flúðir – Reykholt – Laugarvatn – Grímsnes – Selfoss. Breytingin tekur gildi frá og með 1. febrúar nk.

Hallarekstur ársins 2018 gerður upp

Útistandandi halli á rekstri almenningsamgangna á Suðurlandi 2018 er áætlaður 36 m.kr. Hluti af kröfum SASS til Vegagerðarinnar var að gera upp hallareksturinn. Í fundargerð SASS kemur fram að „Vegagerðin hafi, fyrir hönd ráðuneytis samgöngu og sveitarstjórnarmála, staðfest að uppgjör fari fram á uppsöfnuðu tapi við rekstur almenningssamgangna hjá landshlutasamtökunum“.