-5.2 C
Selfoss

Ný lög um lögheimili og aðsetur tóku gildi um áramótin

Vinsælast

Ný lög um lögheimili og aðsetur og reglugerð um sama efni tóku gildi 1. janúar 2019. Markmið laga þessara og reglugerðar er að stuðla að réttri skráningu lögheimilis og aðseturs á hverjum tíma og tryggja réttaröryggi í meðferð ágreiningsmála er varðar skráningu lögheimilis.

Réttarbætur þær sem taka gildi nú um áramótin eru fjölmargar. Ráðuneytið vill hins vegar vekja sérstaka athygli á fernum nýjungum í nýjum lögum:

Í fyrsta lagi er gerð sú krafa til þinglýsts eiganda fasteignar að hann hlutist til um að skráning lögheimilis einstaklinga sem hafa fasta búsetu í húsnæði hans sé rétt. Gert er ráð fyrir að  þinglýstur eigandi fái senda tilkynningu í pósthólf sitt á Ísland.is um þá sem skrá lögheimili sitt í fasteign í hans eigu. Vanræki eigandi fasteignar ofangreindar skyldur getur það varðað sektum.

Í öðru lagi verður einstaklingi sem stundar nám erlendis áfram heimilt að hafa lögheimili á Íslandi meðan á námi stendur enda sé hann ekki skráður með lögheimili erlendis á meðan. Námsmanni ber að tilkynna til Þjóðskrár Íslands um námsdvöl erlendis og framvísa staðfestingu um skólavist. Sú breyting hefur verið gerð frá eldri rétti að námsmaður þarf að hafa haft lögheimili samfellt á Íslandi í að minnsta kosti tvö ár áður en nám erlendis hefst. Sama gildir um maka námsmanns og börn sem dveljast erlendis með námsmanni. Þá hefur einnig verið gerð sú breyting að heimild til að hafa lögheimili hér á landi fellur niður að fjórum árum liðnum nema nýrri staðfestingu um skólavist sé framvísað hjá Þjóðskrá Íslands. Berist staðfesting ekki innan tilskilins frests er Þjóðskrá Íslands heimilt að fella niður aðsetursskráningu og skrá lögheimili námsmannsins erlendis.

Í þriðja lagi verður einstaklingi áfram heimilt að halda lögheimili sínu á Íslandi þrátt fyrir dvöl erlendis vegna veikinda. Gerð er sú krafa að vottorð útgefnu af lækni með starfsleyfi á Íslandi sé framvísað hjá Þjóðskrá Íslands um nauðsyn dvalar erlendis vegna veikindanna og tilkynnt sé um aðsetur erlendis. Þá tekur sú nýbreytni gildi að framangreind heimild er háð því að einstaklingurinn hafi haft lögheimili samfellt á Íslandi í að minnsta kosti tvö ár áður en veikindi hófust, auk skilyrða sem ráðherra getur sett samkvæmt reglugerð. Framangreind heimild gildir aðeins í eitt ár nema óskað sé eftir áframhaldandi aðsetursskráningu hjá Þjóðskrár Íslands. Leggja þarf fram nýtt læknisvottorð þegar óskað er framlengingar.

Loks er vakin sérstök athygli á auknum eftirlitsheimildum Þjóðskrár Íslands með lögheimilisskráningu. Þegar uppi er vafi um rétta skráningu á lögheimili er Þjóðskrá Íslands heimilt að óska eftir upplýsingum frá stjórnvöldum og fyrirtækjum í einkarekstri, sem búa yfir eða varðveita upplýsingar um búsetu einstaklinga, í þeim tilgangi að ákvarða rétta skráningu. Stjórnvöldum og fyrirtækjum í einkarekstri er rétt og skylt að verða við beiðni Þjóðskrár Íslands. Þá er stjórnvöldum og fyrirtækjum í einkarekstri heimilt að eigin frumkvæði að upplýsa Þjóðskrá Íslands þegar þau verða þess vör að ósamræmi er á milli lögheimilisskráningar og raunverulegrar búsetu.

Ýmis önnur nýmæli
Að auki er að finna önnur nýmæli í lögunum. Hjónum verður til dæmis heimilt að skrá lögheimili hvort á sínum staðnum, þrátt fyrir meginregluna um að hjón skuli eiga sama lögheimili. Heimilt verður að skrá tímabundið lögheimili á skráðum áfangaheimilum, í starfsmannabúðum og sambærilegu húsnæði enda sé fyrir hendi leyfi til reksturs starfseminnar. Þá skal skrá lögheimili einstaklinga í fjölbýlishúsum niður á íbúðir sem mun auðvelda framkvæmd manntals og minnka líkur á tryggingasvikum svo dæmi séu nefnd. Heimilt verður að fara þess á leit við Þjóðskrá Íslands að lögheimili verði dulið í þjóðskrá að uppfylltum ströngum skilyrðum o.fl. Tvö síðastnefndu atriðin munu taka gildi þann 1. janúar 2020 að öllu óbreyttu.

Nýjar fréttir