-3.6 C
Selfoss
Home Fréttir Fyrsta bók ársins hjá Bókaútgáfunni Sæmundi – útgáfuhóf

Fyrsta bók ársins hjá Bókaútgáfunni Sæmundi – útgáfuhóf

0
Fyrsta bók ársins hjá Bókaútgáfunni Sæmundi – útgáfuhóf
Fyrsta bók ársins frá Bókaútgáfunni Sæmundi.

Verðlaunahöfundurinn Kim Leine mætir á útgáfuhóf í Lækjargötuhúsi á Árbæjarsafni fimmtudagskvöldið 3. janúar kl. 20. Þar er fagnað fyrstu bók Sæmundar á nýju ári, Rauður maður/Svartur maður sem Leine sendi frá sér í fyrra og birtist hér í glæsilegri þýðingu Jóns Halls Stefánssonar.

Í þessum öðrum hluta Grænlandstrílógíu sinnar leitar Kim Leine fanga aftur til 18. aldar, í nýlendustofnun Dana á Grænlandi.

Særingamaðurinn Aappaluttoq, Rauður, bjargar lífi fársjúks sonar með því að koma honum í fóstur hjá trúboðanum Hans Egede og Gertrud eiginkonu hans. Þvert gegn vilja Rauðs er drengnum aldrei skilað því maðurinn í svörtu hempunni ákveður að skíra drenginn og halda honum hjá sér.

Hér er sagt frá upphafi kristniboðs og nýlenduvæðingar á Grænlandi, lygilegum tildrögum, ævintýralegri framkvæmd og hræðilegum afleiðingum, bæði fyrir nýlendubúana dönsku og Grænlendinga sjálfa. Stílsnilld Leine er söm við sig, atburðarásin og lýsingarnar eru hér ennþá magnaðri en í fyrstu sögulegu skáldsögu hans, Spámönnunum í Botnleysufirði. Hér fer höfundurinn þó nær skjalfestum veruleika því flestar hinna fjölmörgu eftirminnilegu persóna eiga sér sögulegar fyrirmyndir og atburðirnir sem eru hvað ótrúlegastir áttu sér stað í raun og veru.

Rauður maður/Svartur maður er stórvirki í öllum skilningi, saga um árekstur ólíkra menningarheima og baráttu við hrikaleg náttúruöfl, saga um feður og syni, dauða og drykkjuskap, sturlun og stærilæti, guðstrú og glötun, uppgjöf og uppljómun sálarinnar.