Það voru kampakátir meðlimir í Björgunarfélagi Árborgar sem opnuðu flugeldaverslun sína nú í morgun kl. 10. Aðspurður um helstu nýjungar sagði Karl Ágúst Hoffritz, gjaldkeri, að fyrst bæri náttúrulega að nefna Rótarskotið, sem er ný leið Björgunarsveitanna til fjáröflunar. „Það virkar þannig að hvert Rótarskot gefur af sér tré sem gróðursett er með stuðningi Skógræktarfélags Íslands í nýjan Áramótaskóg Slysavarnafélagsins Landsbjargar niðri í Þorlákshöfn. Allur ágóði af þessu rennur síðan til okkar starfs.“
Fyrir þá sprengjuglöðu er gríðarlegt úrval, eins og verið hefur. Verðbilið er mjög breitt og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Terturnar og gos eru t.d. frá kr. 600.- upp í um 90.000.- fyrir þá dýrustu. Í ár er helsta nýjungin afmælistertur sem búnar voru til í tilefni af 90 ára afmæli félagsskaparins. „Þetta eru geysilega öflugar tertur, 90 og 64 skota. Heil flugeldasýning, segir Karl Ágúst.“
Fyrir yngri kynslóðina má svo finna pakka í þremur stærðum. Pakkarnir innihalda smádót sem hentar yngri kynslóðinni vel. „Við minnum svo alla á að versla öryggisgleraugu á alla um áramótin, en þau eru í boði hér á vægu verði, segir Karl Ágúst.“ Þá er hægt að fá allar leiðbeiningar um meðhöndlun og fleira hjá starfsmönnum BÁ. Þá eru bæklingar sem fylgja pökkum ásamt því að tertur og annað er vel merkt og leiðbeiningar segja til um meðferð utan á umbúðunum.