-5.5 C
Selfoss

90 ára afmælisár SSK senn á enda

Vinsælast

Senn er 90 ára afmælisár Sambands sunnlenskra kvenna á enda runnið en það var stofnað í Þjórsártúni árið 1928 af kvenfélögunum í Árnes- og Rangárvallasýslu. Starfsemi Sambandsins hefur gengið vel á árinu og ýmislegt var gert til að fagna þessum tímamótum í sögu SSK.

Í maí efndi SSK til hópferðar til Hollands til móts við þarlendar kvenfélagskonur, sem sótt hafa okkur heim. Um 50 kvenfélagskonur úr 13 kvenfélögum tóku þátt í þessari ferð, sem var einkar vel heppnuð. Mikilvægur þáttur í starfsemi Kvenfélagasambands Íslands er að efla og styrkja samskipti við systrafélög á alþjóðlegum vettvangi og var þessi ferð í þeim anda.

Á stofndegi SSK 30. september var efnt til afmælishátíðar í Haukadalsskógi og á Hótel Geysi. Sérstök afmælisnefnd var skipuð og sá hún um undirbúning og framkvæmd hátíðarinnar í samvinnu við stjórn SSK. Yfir 100 kvenfélagskonur komu saman og áttu ánægjulega dagstund í fögru umhverfi og góðu haustveðri. Á dagskránni var gönguferð um skóginn í anda bættrar lýðheilsu. Tónlistaratriði voru bæði í skóginum og á hótelinu þar sem snæddur var ljúffengur málsverður. Andleg og líkamleg næring var því í hávegum höfð þennan skemmtilega haustdag.

Á afmæisárinu hefur SSK unnið með kjörorðið „Forvarnir – lykill að bættri lýðheilsu“. Áhersla lögð á heilsueflingu og mikilvægi hreyfingar, einnig er áhersla lögð á varnir gegn hvers konar sóun í daglegu lífi ásamt því að beina sjónum að vörnum gegn fíkniefnum og fræðslu um fíkn í samvinnu við löggæsluyfirvöld á svæðinu.

Um miðjan október sóttu 24 konur úr 12 kvenfélögum SSK Landsþing Kvenfélagasambands Íslands sem að þessu sinni var haldið á Húsavík. Þar voru alls samankomnar um 200 konur. Yfirskrift þingsins var „Fylgdu hjartanu“ og var þar m.a. fjallað um hjartaheilsu kvenna, almannatengsl og fatasóun. Þar fór einnig fram “hugarflug” í hópavinnu um gildi kvenfélaga og orðin sem þar voru oftast nefnd eru: Kærleikur-Samvinna-Virðing-Vinátta. Ásamt því að mikill samhljómur var í viðfangsefnum félaganna þ.e. a) að láta gott af sér leiða b) samvera og samvinna c) félagsskapurinn.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands voru færðar veglegar gjafir á árinu. Sjúkrahússjóður SSK afhenti þrjú mikilvæg tæki til sjúkrahússins  sem auka öryggi verðandi mæðra og nýbura á fæðingadeild HSu. Verðmæti þessara tækja er yfir 3 milljónir, sem er afrakstur sameiginlegrar fjáröflunar kvenfélaganna með sölu kærleiksengla og korta fyrir jólin. Kvenfélögin færðu HSu myndarlegar gjafir og einnig öldrunarstofnunum í sínu nærumhverfi.

Það hefur löngum verið háttur kvenna að vinna góðverk sín í kyrrþey og á það við um starfsemi kvenfélaganna.  Kvenfélagskonur eru ekki mikið fyrir að berja sér á brjóst og miklast af sínum verkum. Enginn félagsskapur er betri en einstaklingar sem mynda hann. Kvenfélagskonur geta borið  höfuð hátt og verið stoltar af framlögum sínum  til samfélagsins. Þær njóta þess að vinna saman að góðum verkum og gleðjast yfir árangrinum.

Bókin Gengnar slóðir SSK 1928-1978 var rituð og gefin út í tilefni 50 ára afmælis SSK. Þessi bók er ómetanleg heimild um sögu kvenfélaganna og kvenna á Suðurlandi og SSK. Í tilefni að 90 ára afmælinu hefur verið stofnaður söfnunarreikningur til að fjármagna ritun á sögu SSK næstu 50 árin og stefnt er að útkomu verksins á 100 ára afmæli Sambandsins.

Þakkir eru færðar öllum þeim sem styðja við starfsemi kvenfélaganna, án þeirra velvilja væri þetta ekki hægt.

Við sendum öllum kvenfélagskonum og fjölskyldum þeirra hugheilar nýjárskveðjur og hlökkum til samstarfsins á komandi ári.

Góð kvenfélagskona er gulli betri. – Stjórn SSK.

 

Nýjar fréttir