-6.6 C
Selfoss

Þegar enginn fékk í skóinn

Vinsælast

Í desember óskaði Dagskráin – fréttablað Suðurlands eftir örsögu frá lesendum blaðsins til að birta í jólablaðinu. Sagan átti að vera jólasaga en að öðru leyti var frjáls aðferð. Ekki stóð á viðbrögðum því talsvert barst af sögum og ljóst að víða leynast hæfileikar í sagnagerð.

Sú saga sem varð hlutskörpust að mati dómnefndar ber nafnið „Þegar enginn fékk í skóinn“. Sagan er skrifuð í samstarfi systranna Hugrúnar Lísu og Katrínar Lísu Guðmundsdætra. Þær eru níu og sjö ára. Þær systur hlutu að launum bókagjöf frá Bókakaffinu og Bókaútgáfunni Sæmundi. Við óskum vinningshöfunum til hamingju með vinninginn og söguna. Sagan er hér að neðan.

Þegar enginn fékk í skóinn

Í Sunnubæ hefur komið upp einkennilegt mál, jólasveinamál. Krakkarnir fengu engar gjafir í skóinn!! Krakkarnir sem trúa ekki á jólasveinana og segja foreldra sína gefa í skóinn, þau fengu heldur ekki neitt! Meira að segja óþekku krakkarnir fengu ekki einu sinni kartöflu. Hvað er eiginlega að gerast? Allir krakkarnir eru daprir og skilja hvorki upp né niður í þessu.

Krakkarnir í þriðja bekk ákváðu að leita saman að jólasveinunum, eftir skóla, líka krakkarnir sem trúðu að foreldrar þeirra gæfu þeim í skóinn. Þau klæddu sig vel og tóku með sér nesti. Það er dáldið langt að fjöllunum og snjór og kalt úti. Krakkarnir gengu rösklega af stað og voru fljótt komin fjarri mannabyggð. „Hérna“ öskrar Dagur. Krakkarnir þjóta til hans. Á fannklæddri jörðinni liggur staur. Krakkarnir horfa á hvort annað. „Er þetta staurinn hans Stekkjarstaurs?“ Segir Fjóla mjóróma og tekur upp staurinn. Um leið gerist eitthvað mjög undarlegt. Snjórinn fýkur upp allt í kringum Fjólu og áður en krakkarnir ná að hreyfa sig þá stendur allt í einu furðuleg vera fyrir framan þau og Fjóla er horfin! „Halló krakkar!“ segir veran og brosir furðulega. „Hver ert þú og hvar er Fjóla“ spyrja krakkarnir furðulostnir.“Ég heiti Sturtusveina og get ekki beðið eftir því að komast til byggða og fara í sturtu!“ Krakkarnir skellihlæja en áður en þau vita af er Sturtusveina horfin og þau hafa ekki hugmynd um hvar Fjóla er. Krakkarnir velta því fyrir sér hvort það geti verið að Fjóla hafi breyst í Sturtusveinu. Þau ákveða að halda áfram og eru ekki alveg viss um að þau langi að Sturtusveina komi í stað Stekkjarstaurs. Þau halda því áfram ferð sinni. „Sjáið þið“! Kallar Nótt og bendir á jólasveinahúfu á jörðinni. Jónas tekur upp húfuna og um leið þyrlast snjórinn upp í kringum hann og skrítinn karl birtist. „Hó, hó, hó!“ segir hann og horfir stríðnislega á krakkanna. „Hver ert þú og hvað gerðir þú við Jónas!“ Hrópa krakkarnir hissa. „Ég heiti Símasveinn og ég þarf nauðsynlega að hringja í hana Sturtusveinu systur mína, eruð þið nokkuð með síma krakkar?! Krakkarnir horfa á hvort annað en á meðan skýtur Símasveinn sér í flýti í burtu. Krakkarnir halda áfram og flýta sér nú eins og þau geta. „Hér er skinnskór!“ kallar Bína og sýnir krökkunum hann þar sem hann liggur frosinn á jörðinni. „Ekki koma við hann!“ kalla krakkarnir upp um leið og Bína sparkar í skóinn til að losa hann frá jörðinni. Það skiptir engum togum að snjórinn þyrlast upp og áður en krakkarnir fá við nokkuð ráðið er Bína horfin og fyrir framan þau stendur undarleg kerling. „Hver ert þú og hvar er Bína?!“ hvísla krakkarnir varlega. „Ég heiti Smákökukrækja og nú ætla ég að krækja mér í nokkrar smákökur á Selfossi!“ segir kerling lymskulega og laumast í burtu um leið og krakkarnir horfa hissa á hvort annað.  Nú er farið að fara um krakkana, eiga þau að halda áfram og hverfa eitt og eitt eða fara heim og vona það besta? Þau hafa upplifað einhvers konar töfra og kannski verða þau bara að trúa á gömlu jólasveinana svo þessir nýju birtist ekki.

„Sjáið hérna!“ Krakkarnir flýta sér til Dúnu sem bendir á vettling á jörðinni. „Ekki koma við hann!“ hrópa þau upp um leið og Siggi tekur upp bréfsnifsi við hlið vettlingsins. „Þetta er bréf frá Þvörusleiki! Hann segir að við verðum að trúa á jólasveinanna svo þeir hverfi ekki að eilífu!“ Krakkarnir skoða bréfið vel og setjast svo í flýti niður í hring.  Kata kveikir á kerti og setur í miðjan hringinn. Krakkarnir taka höndum saman loka augunum og endurtaka í kór „við trúum, við trúum á jólasveinana.  Allt í einu þyrlast snjórinn upp allt í kringum þau og þau hverfa í fjúkinu.

Nýju sveinarnir eru nú allir komnir til byggða. Sturtusveina stendur í öllum fötunum í sturtu og syngur jólalög með skrækri röddu. Símasveinn tekur sjálfur með Smákökukrækju sem er með hausinn ofan í smákökudós. Þau taka ekki eftir snjófjúkinu sem skyndilega umvefur þau.

Úti þylja krakkarnir orðin „við trúum“ aftur og aftur og svo verður allt hljótt. Þau þora varla að opna augun. Þá heyrist allt í einu sagt með djúpum, skrækum, rispuðum og allskonar röddum í kór „hó, hó, hó, þakka ykkur kærlega fyrir!“ Krakkarnir opna augun glöð og hissa. „Ef það væri ekki fyrir samstarf ykkar krakkar, þá hefðum við horfið að eilífu og þið hefuð breyst í nýja jólasveina, jólasveina sem enginn vissi af né þekkti. Þið hafið sýnt hinn sanna jólaanda!“ Segir Kertasníkir og horfir glaður á kertið í miðju hringsins og teygir sig í áttina að því. „Nú væri gaman að vita hvar bræður okkar þrír eru niðurkomnir!“

Skemmst er frá því að segja að Stekkjarstaur rennblotnaði í sturtunni og Giljagaur sendi stórkostlegt snapp af Stúfi með kökudósina á hausnum!  Nú munu örugglega öll börn Sunnubæjar fá gjöf í skóinn.

Nýjar fréttir