3.9 C
Selfoss
Home Fréttir Krabbameinslæknir hefur störf á HSU

Krabbameinslæknir hefur störf á HSU

Krabbameinslæknir hefur störf á HSU
Sigurður Böðvarsson. Mynd: HSU.

Sigurður Böðvarsson sérfræðingur í krabbameinslækningum hefur verið ráðinn yfirlæknir göngudeildar á sjúkrahússviði Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) frá 1. desember 2018. Sigurður er nú nýfluttur til landsins eftir að hafa starfað í Bandaríkjunum s.l. 8 ár.  Þar starfaði hann sem sérfræðingur í krabbameinslækningum við Gundersen Health System, La Crosse í Wisconsin og nú síðast við Green Bay Oncology, Green Bay, Wisconsin. Áður starfaði Sigurður um níu ára skeið sem sérfræðingur í krabbameinslækningum við Landspítala.  Hann hefur áralanga reynslu af meðferð krabbameinssjúklinga, rannsóknum, kennslu og stjórnun, var um tíma formaður Læknafélags Reykjavíkur og sat í stjórn Læknafélags Íslands. Hann lauk meistaragráðu í stjórnun heilbrigðisþjónustu frá Háskólanum á Bifröst árið 2009.

Starfsemi göngudeildar á Selfossi hefur vaxið jafnt og þétt frá opnun hennar árið 2014.  Þar hefur íbúum Suðurlands um nokkuð skeið verið boðið upp á rannsóknir hjá sérfræðingum í lungna- og hjartalækningum, auk móttöku augnlæknis, HNE læknis og kvensjúkdómalæknis. Frá formlegri opnun göngudeildarinnar á Selfossi hefur verið veitt meðferð fyrir sjúklinga í blóðskilun, auk lyfjameðferðar fyrir sjúklinga með ýmsa langvinna sjúkdóma. Nú nýlega hófst lyfjameðferð á HSU á Selfossi fyrir krabbameinssjúklinga í samstarfi við Landspítala.  Lyfjameðferð krabbmeinssjúklinga við sjúkrahús HSU í Vestmannaeyjum hefur verið í boði um nokkra ára skeið. Það er stefna HSU að byggja upp þjónustu við krabbeinssjúklinga í heimabyggð. Það er mikilvægt að veita slíka þjónustu, eins og bolmagn er til, sem nýtist íbúum sem best.  Við höfum hug á því að færa heilbrigðisþjónustna nær íbúum með bæði nær- og fjarheilbrigðisþjónustu.  Þannig viljum við útfæra aukið aðgengi að þjónustu fyrir sem flesta og ekki síst fyrir þá sem eiga, vegna veikinda sinna, erfiðara með að fara um langan veg til að sækja sér meðferð.

Á undanförnum árum hefur meðferðarmöguleikum hinna ýmsu krabbameina fleygt fram. Fjöldi sjúklinga með langvinna krabbameinsjúkdóma mun þó því miður fara vaxandi á næstu árum og áratugum. Um helmingur sjúklinga sem greinast með krabbamein læknast. Mörg ólæknandi krabbamein eru voru áður valdur lífsloka eru nú að færast meira yfir í hóp langvinnra sjúkdóma, þökk sé bættri lyfjameðferð.

Það er því mikill fengur fyrir HSU að fá Sigurð til starfa. Sjúklingum sem þurfa lyfjameðferð vegna krabbameins- og blóðsjúkdóma, er boðið í samvinnu við Landspítala að þiggja þjónustu á HSU, eins og kostur er. Sigurður mun einnig veita öðrum langveikum sjúklingum meðferð, ráðgjöf og þjónustu. Við bjóðum Sigurð Böðvarsson velkominn til starfa hjá HSU.

Frétt fengin af heimasíðu HSU.