3.9 C
Selfoss

Eplakaka með rjómaosti

Vinsælast

Helga í Eldstó Art Café á Hvolsvelli býður lesendum Dagskrárinnar og dfs.is upp á eplaköku með rjómaosti.

Eplakaka með rjómaosti

  • 200 gr. sykur
  • 120 ml olía
  • 1 tsk. vanillusykur (eða vanilludropar t.d. Roma)
  • 200 g rjómaostur
  • 2 stór egg
  • 170 gr. hveiti
  • 1,5 tsk lyftiduft
  • kanelsykur
  • möndluflögur
  • 2 epli, afhýdd, kjarnhreinsuð og skorin í báta

Ofninn hitaður í 175 gráður við undir- og yfirhita og ca. 24 cm smelluform smurt að innan. Sykur, olía, vanillusykur og rjómaostur er hrært vel saman. Þá er eggjunum bætt út í, einu í senn og hrært vel. Því næst er hveiti og lyftidufti bætt út í og hrært við lágan hraða þar til deigið hefur blandast vel saman. Deiginu er svo hellt í smurt formið. Eplabátunum er stungið ofan í deigið hringinn í kring frá miðju og möndluflögunum dreift yfir. Að síðustu er kanelsykrinum stráð yfir kökuna.

Bakað í ofni í ca. 50 mínútur eða þar til kakan er bökuð í gegn í miðjunni og farin að losna frá forminu. Ef kakan fer að verða dökk í ofninum áður en hún er bökuð í gegn er gott að setja álpappír yfir hana.

Eplakakan er borin fram heit eða köld með þeyttum rjóma og ís, eða eftir smekk.

Þessi góða eplakaka er núna bökuð í Eldstó Art Café og er algjör draumur. Það má segja að rjómaosturinn geri útslagið. Hún er mjúk undir tönn og smakkast vel bæði heit eða köld. Hún geymist vel í kæli, en má líka frysta. Hún er fljót að þiðna, ca. 2 klst.

Nýjar fréttir