-8.3 C
Selfoss

Fimmtíu og fjögur góð ár í prentinu að baki

Vinsælast

Valdimar Bragason prentsmiður hjá Prentmet á Selfossi hefur látið af störfum eftir rúm 54 ár í prentinu. Valdimar hefur fylgt Dagskránni allt frá því hún hóf göngu sína fyrir rúmum fimmtíu árum. Í viðtali við Valdimar sem birtist í blaðinu á 50 ára starfsafmælinu 2014 sagði hann m.a. að þetta hafi verið gjörólíkur heimur samanborið við það sem er í dag. „Á þessum 50 árum hef ég gengið í gegnum allar þessar breytingar, úr blýinu, sem hafði verið prentaðferðin í 500 ár, allt frá því er Gutenberg fann upp prenttæknina, þangað til farið er yfir í pappírsumbrot og síðan í tölvurnar, skref fyrir skref.“

Valdimar er fæddur í Reykjavík árið 1948. Hann flutti 5 ára til Hveragerðis og bjó þar í tæp tíu ár eða þangað til hann flutti á Selfoss þar sem hann hefur búið síðan. Það var síðan árið 1964 sem Valdimar sá auglýsingu hanga uppi í búð á Selfossi þar sem auglýst var eftir nema í prentun í Prentsmiðju Suðurlands. Búðin hét Ólabúð og var þar sem veitingastaðurinn Surf and turf er núna. Valdimar var ráðinn, fyrst á reynslutíma, en síðan var undirritaður námssamningur við piltinn, dagsettur 15. nóvember 1964. Starfsferillinn í prentinu spannar því rúm 54 ár. Lengst af hefur Valdimar starfað hjá Prentsmiðju Suðurlans sem síðan varð hluti af Prentmeti árið 2006.

Valdimar ásamt Ingibjörgu Steinunni og Guðmundi Ragnari, eigendum Prentmets. Mynd: GPP.

Við starfslokin færðu hjónin Guðmundur Ragnar Guðmundsson og Ingibjörg Steinunn Ingjaldsdóttir, eigendur Prentmets, Valdimar þakklætisgjöf fyrir góð störf í þágu fyrirtækisins.

Valdimar sagði glaður í bragði við starfslokin í prentinu að það væru næg verkefni framundan, í garðyrkju, leiðsögumannastarfi og kórsöng.

Nýjar fréttir