-1.1 C
Selfoss

Frábær laxaforréttur frá Fákaseli

Vinsælast

Sindri Daði Rafnsson, bakari og kona hans, Íris Dröfn Kristjánsdóttir opnuðu í haust veitingastaðinn Fákasel Restaurant á Ingólfshvoli í Ölfusi. Þau koma frá Flúðum þar sem þau ráku lítið bakarí, Sindri bakari, við góðan orðstýr. Sindri og Íris ákváðu að róa á önnur mið og taka við veitingarekstrinum á Fákaseli fyrir nokkru.

Fákasel Restaurant bauð upp á jólahlaðborð og fjölskyldu jóla brunch á aðventunni sem var mjög vel sótt. Einnig var jólamarkaður um helgar þar sem handverksfólk kom saman og seldi fjölbreyttar vörur.

Hér er uppskrift að frábærum og nokkuð einföldum forrétti. Hann sló rækilega í gegn á jólahlaðborðinu í Fákaseli og þau hjónin sjálf ætla að hafa hann sem forrétt um jólin.

Uppskrift:
U.þ.b. 1 kíló af ferskum laxi (eitt gott flak með roði)

Tómatsalsa:
5–6 stórir tómatar
2 rauðlaukar
3 hvítlauksrif
Fínsaxað rautt chili eftir smekk (3–4 tsk)
safi úr einu lime
1 msk ólífuolía
1 msk tómatpúrra
1 msk Mable síróp
salt og pipar eftir smekk
fersk basilika eftir smekk

Allt frekar smátt skorið og blandað vel saman.

Ofninn hitaður í 180 gráður á blæstri

Laxaflakið er hreinsað og sett með roðinu á smjörpappír í ofnskúffu.
Tómatsalsa er hellt yfir þannig að það hylji allann laxinn
Því næst er hann settur í ofninn og bakaður í 15 mínútur.
Þegar rétturinn er tilbúinn má færa hann varlega yfir á bakka og  skreyta hann með ferskri basiliku og ristuðum furuhnetum.

Það góða við þennan rétt er að það er lítið mál að undirbúa hann töluvert áður en hann er settur í ofninn og hann er góður bæði heitur og kaldur.

Nýjar fréttir