-1.1 C
Selfoss

Snillingurinn Maggnús Víkingur Grímsson

Vinsælast

Fátt er betra fyrir fámenn samfélög en fá inn til búsetu sjálfstætt fólk með aðra sýn og allt annan bakgrunn en þeir hafa, sem í fleti eru fyrir. Í þennan lukkupott höfum við Hrunamenn einstaka sinnum dottið okkur sjálfum til sáluhjálpar og framtíðinni til heilla.

Árið 1979 var eitt hið versta á síðari hluta tuttugustu aldar. Afburða kalt vor og sumir héldu því fram að sumarið hefði aldrei komið. Í maí mánuði það árið flutti Maggnús Víkingu Grímsson með fjölskyldu sinni að Jaðri í Hrunamannahreppi.

Jörðin Jaðar er á sveitarenda, var stofnað til hennar af umráðenda Tungufells, magister Brynjólfi Sveinssyni Skálholtsbiskupi á sautjándu öld.

Liggur hún líkt og kirkjustaðurinn Tungufell á mörkum sveitar og afréttar. Þótt bæjarleiðir séu langar frá Jaðri og niður í sveit, fóru fljótt að berast sögur af nýja bóndanum á Jaðri. Þótti hann nokkuð hvatur og óráðþægur, en það eigum við Hrunamenn erfitt að líða. En ódeilinn og glaðsinna var hann og það bjargaði miklu. Ýmsar voru ólíkindasögurnar sem bárust af nýja bóndanum á Jaðri og er af nógu af að taka.

Einhverju sinni skildi slátra nautkálfi á Jaðri og fann Magnús ekki hentug skot til aðgerða. Skrapp hann þá á bæ einn ónefndum og bað um skot til láns. Bóndinn þar taldi sig ekki geta leyst úr vandræðum þessum, þar sem hann ætti bara stór nautaskot. Svaraði þá Magnús: „ég stend bara lengra frá kálfinum“ . Hrútasýningar voru á þessum árum hálfgildings helgiathafnir í Hrunamannahreppi. Þar mætti Magnús eins og vera bar með bekra sína. En þegar liðið var vel á sýninguna og bændur að verða sáttir með uppröðun hrútanna fer hann að káfa undir skepnurnar og finnur eineisting sem þar var í efstu sætum, var bændum ekki skemmt og var á svip þeirra að sjá, að hjá nýja bóndanum á Jaðri vantaði nokkuð upp á þroska og háttvísi. En svona var hann og svona er hann. Maggnúsi verður seint breytt.

Sjö árin bjó Maggnús á Jaðri og farnaðist vel. Þá flutti hann um set, en ekki lengra en niður á Flúðir. Byggði hann þar hús veglegt sem kallað var Sigurhæðir. Var þar vísað til húss langafabróðir hans Matthíasar Jochumssonar skálds á Akureyri. Setti svo upp verslun í bílskúrnum sem nefnd var Tréholt. Þar var vísað til norska kratans Arnes Treholt , sem skók hinn vestræna heim á þessum árum , fyrir meintar njósnir.

Tréholt var framúrstefnu verslun með ýmiskonar byggingarvörur allt frá múrbrettum til músagildra. Mjög sjaldan var nokkur við til afgreiðslu en búðin var opinn alla daga frá morgni til kvölds. Menn náðu bara í það sem þá vanhagaði um og áttu að skrifa úttektina á miða sem yfirleitt var til staðar. Þessi verslunarmáti varð til að styrkja okkur Hrunamenn í heiðarleika , sem einstaka veitti ekki af.

Á Flúðaárunum vann Maggnús mest við smíðar og ýmsa verktöku um allar koppagrundir. Þar átti hann ekki síður heima en við búskapinn, því Maggnús 360 Ummæli vina: Mesta afrekið, blessuð börnin er völundur mikill til handanna. Þar eignaðist hann nýjan stóran hóp aðdáenda samsettan misgömlum húsmæðrum, því hann setti upp og smíðaði og breytti eldhúsum og baðherbergjum. Við verklok skildi hann eftir betri hús og brosandi konur.

Já hann Maggnús Víkingur er gæfumaður; og á þessum árum slitu þau sambúð Maggnús og fyrri kona hans Elín frænka mín, því auðvita reyndi nokkuð á að vera lengi í sambúð með snillingnum Maggnúsi. Þá var hann svo ljónheppin að kynnast henni Ingu Dís. Til Reykjavíkur flytja þau og hasla sér völl á uppgangsárunum eftir tvöþúsund. Þau keyptu fyrirtækið Glugga og garðhús og græddu á tá og fingri. Þar nýttust vel hæfileikar þeirra beggja. Hann kattlaginn hugmyndafræðingur sem breytti gömlum og nýjum húsum í listhús með útsjónarsemi, prjónaði við garðskála og sólarsali byggði hann betri en voru í híbýlum huldufólksins forðum tíð, en Inga Dís sat á kontornum ávaxtaði pundið. Peningarnir breyttu ekki Maggnúsi, gátu ekki breytt honum því hann var fæddur ríkur.

Varla gengur að fjalla um Maggnús Víking Grímsson án þess að minnast á flug. Flugmaður hefur hann verið í orðsins víðustu merkingu, bæði flogið um loftin blá og flogið á jörðu niðri gegnum lífið. Líklega er hann þekktastur fyrir flug, allaveganna í dagblöðum og hjá dómstólum landsins. Fífldjarfur flaug hann á rellu sinni, með allslags snúningum og kollhnísum, sem meðaljónin á jörðu niðri sundlaði við að horfa á.

Alltaf kom hann samt heill og glaðbeittur úr hverjum túr.

Allt fáum við úr genum ættartrésins en það tré Maggnúsar hefur margan kynlegan kvistinn borið. Einu sinni sagði Maggnús mér að Ástríður amma sín hefði sagt sér ungum að hún teldi hann líkjast mikið bróður sínum Jochum Eggertssyni, sem kallaði sig Skugga og var býsna þekktur á sinni tíð. Því er þar opin leið fyrir þá sem vilja kynnast Maggnúsi betur að lesa bara rit Skugga. Mikilvægara er samt að lesa bókina sjálfa sem er uppfull af lygilegum frásögum sem gerðust á lífsgöngu höfundar, en er samt lygilegust vegna þess að hún er nær sannleikanum en flestar aðrar ævisögur útgefnar.

Jón Hermannsson

Nýjar fréttir