3.9 C
Selfoss

Leikskólinn Álfheimar hefur starfað í þrjátíu ár

Vinsælast

Leikskólinn Álfheimar var opnaður 13. desember 1988 og fagnar því 30 ára afmæli fimmtudaginn 13. desember næstkomandi. Fyrsti leikskólastjórinn var Ingibjörg Stefánsdóttir en hún starfaði frá 1988 til 2016. Núverandi leikskólastjóri er Jóhanna Þórhallsdóttir.

Upphaflega voru þrjár deildir í leikskólanum, Álfasteinn, Dvergasteinn og Óskasteinn. Fyrstu tvö árin var 1. bekk kennt í leikskólanum, einnig var þar starfrækt skóladagheimili. Fyrstu tíu árin voru 18 börn á hverri deild, en 1998 var börnum fjölgað í 20 til 24 börn á hverri deild. í dag eru 17–24 börn á hverri deild. Völusteinn, fjórða deildin bættist við árið 2006 auk Engisins, sem er náttúrlegt útileiksvæði sunnan við leikvöllinn. Í dag eru 84 börn í leikskólanum.

Leikurinn er hornsteinn leikskólastarfsins í Álheimum og er áhersla lögð á samskipti og vellíðan í leik og starfi auk virðingu fyrir náttúrunni.

Einkunnarorðin okkar eru VIRÐING – HLÝJA – TRAUST.

Frá fyrsta degi hefur verið lögð rík áhersla á leik barnsins. Í starfi leikskólans er stuðst við boðskiptakenningar Bateson auk rannsókna Bigittu Knudsdottir Olafssonar og Berit Bae. Birgitta segir meðal annars að: Því meira sem fullorðna fólkið örvar leiki almennt, sérstaklega þykjustuleiki, því þróaðri verða hlutverkaleikirnir.

Berit Bae er norskur lektor í uppeldisfræði sem hefur einnig skoðað með hvaða hætti starfsfólk leikskóla vinnur að þróun sjálfsins hjá börnum. Þar á meðal með tilliti til viðmóts, viðhorfs og tengsla við hvert barn. Hugmyndafræði Berit og Birgittu styðja kenningar hvor annarar um leikinn.

Með því að gefa leiknum nægan tíma og rými jafnt inni sem úti í náttúrunni fá börn tækifæri til að þroska alla sínar sterku hliðar.

Leikskólinn Álfheimar er Grænfánaleikskóli en 1998 -2002 tók leikskólinn fyrstu skref sín í átt að umhverfisstefnu. Leikskólinn gerðist græn fjölskylda og tók þátt í Vistvernd í verki á vegum Landvendar og Skóla á grænni grein. Á árunum 2002-2004 tók leikskólinn þátt í þróunarverkefninu Út um mó, inn í skóg með styrk frá Sprotasjóði. Markmið verkefnisins var m.a. að gefa börnunum tækifæri til að kynnast og njóta náttúrunnar auk þess að ganga vel um og bera virðingu fyrir náttúrunni í umhverfi sínu. Leikskólinn fékk Grænfáninn í fyrsta sinn 2004 og nú í áttunda sinn 2018.

Árið 2012 fékk leikskólinn styrk úr Sprotasjóði vegna þróunarverkefnisins Gullin í grenndinni sem er samstarfsverkefni á milli Álfheima og Vallaskóla. Aðalmarkmið verkefnisins er að nemendur beggja skóla kynnist, læri og upplifi náttúruna á fróðlegan og skemmtilegan hátt og að skólastigin myndi tengsl sín á milli í gegnum verkefnið. Út frá þessu þróunarverkefni er stöðug samvinna á milli skólastiganna, bæði barna og kennara. Í dag fara tveir elstu árgangar leikskólans og 1. og 2. bekkur í Vallskóla saman í skógarferð einu sinni í mánuði.

Leikskólastarf er lifandi starf í sífeldri mótun og enginn dagur er eins, samfélagsbreytingar eru örar og nýjar áskorarnir eru daglegt brauð. Margar kynslóðir hafa komið að leikskólanum á þessum þrjátíu árum. Foreldrar sem voru leikskólabörn í þá daga koma nú daglega með börn sín og foreldar þeirra eru núna allt í einu afar og ömmur.

Í tilefni af afmælinu verður ýmislegt gert til að brjóta upp starfið. Dagskrána má nálgast á heimasíðu leikskólans en þar má meðal annars sjá opið hús, hringekju/leikstöðvar, skógarferð og leikskýningu barnanna. Við vonumst til að sem flestir sjái sér fært um að kíkja í heimsókn og njóta tímamótanna með okkur.

Nýjar fréttir