3.9 C
Selfoss

Hljómlistarfélag Hveragerðis æfir fyrir árlegt Sölvakvöld

Vinsælast

Hljómlistarfélag Hveragerðis hlaut menningarverðlaun Hvergerðisbæjar 2018 á 17. júní hátíðarhöldum bæjarins í Laugarskarði síðastliðið sumar. Hljómlistarfélagið, sem heldur upp á sitt 10. starfsár um þessar mundir, er skipað sex vöskum Hvergerðingum sem gegna allir hlutverki formanns félagsins. Þetta eru þeir Sölvi Ragnarsson, Sigurður Egilsson, Kristinn Gr. Harðarson, Heimir Eyvindarsson, Sævar Þór Helgason og Páll Sveinsson.

Hljómlistarfélagið, eða HFH, var stofnað með það að markmiði að efla menningarlíf Hveragerðisbæjar, styrkja listamenn bæjarins og hvetja til dáða ásamt því að láta gott af sér leiða með einum og öðrum hætti. Meðal helstu viðburða sem HFH stendur fyrir eru m.a. hið árlega Sölvakvöld sem haldið er ár hvert á milli jóla og nýárs. Þar koma saman Hvergerðingar og nærsveitungar og setja upp veglega tónlistardagskrá og blása til dansleiks. Óhætt er að fullyrða að þessi viðburður hafi fyrir margt löngu sannað samfélagslegt gildi sitt en Sölvakvöldin hafa verið haldin í 25 ár eða síðan árið 1993.

Aðrir viðburðir sem HFH hefur skipulagt og staðið fyrir eru til að mynda vorfagnaðir, fjölskyldudagskrá á Blómstrandi dögum, styrktartónleikar, jólatónleikar, Styrkjahátíð HFH, afmælistónleikar Hveragerðisbæjar, útgáfa tónlistar og margt fleira. Allur ágóði af starfi félagsins rennur til samfélagsins í Hveragerði og úthluta formennirnir á Styrkjahátíð HFH styrkjum á Bóndadaginn hvert ár. HFH hefur úthlutað og veitt styrki til samfélagsins í Hveragerði, upphæðir sem hlaupa á milljónum króna síðan félagið var stofnað árið 2008.

Nú í ár fer hið árlega Sölvakvöld fram á Hótel Örk laugardagskvöldið 29. desember næstkomandi. Þar verður fjöldbreytt tónlistardagskrá skipulögð af HFH en nú þegar hafa nokkrar hljómsveitir boðað komu sína. Formenn HFH benda áhugasömum listamönnum á að vera í sambandi ef einhverjir óska eftir því að koma fram á viðburðinum.

Nýjar fréttir