-0.5 C
Selfoss

Spartan race í Hveragerði á laugardaginn

Vinsælast

Það er ekki fyrir neina aukvisa eða sófakartöflur að taka þátt í Spartan race keppninni sem fram fer í Hamarshöllinni og í fjöllunum og á stígum í og við Hveragerði laugardaginn 8. desember. Þar mun margt af öflugasta fólki heims glíma við þrautir sem enginn ætti að geta framkvæmt!

Undirbúningur í Hveragerði fyrir langstærsta utanvega hindrunarhlaup sem haldið hefur verið á Íslandi er nú þegar í fullum gangi. Það er fyrirtækið Spartan race sem tekið hefur Hamarshöllina á leigu í tæpan hálfan mánuð og hefur breytt henni í miðstöð hlaupsins. Einnig hafa verið settar upp hindranir á hlaupaleiðinni sem er 10 km að lengd.

Keppendur hlaupa samfellt í 24 tíma í 10 km braut sem lögð hefur verið upp um fjöll og heiðar í kringum Hveragerði. Á leiðinni hefur verið komið upp fjölbreyttum en ögrandi hindrunum sem keppendur verða að leysa. Sá sigrar sem fer flesta hringi á 24 tímum.

Þetta er í annað sinn sem Spartan race hlaupið fer fram í Hveragerði en á síðasta ári fór keppnin fram síðustu helgina fyrir jól og voru þátttakendur hátt í eitt þúsund. Sami fjöldi hefur skráð sig til þátttöku nú í ár í þessari gríðarlegu erfiðu keppni þar sem þeir bestu úr hópi þeirra bestu etja kappi.

Fyrir þá sem ekki treysta sér í fulla 24 tíma keppni má geta þess að ræst verður í tvígang á þessum sólarhring til keppni um einn hring, svokallað sprint. Að sögn þeirra heimamanna sem tóku þátt í þeirri keppni í fyrra dugar það flestu venjulegu fólki í virkilega góðu formi.

Full ástæða er til að hvetja heimamenn og aðra til að gera sér ferð í Hamarshöllina þann 8. desember til að verða vitni að því sjónarspili sem þá fer fram. Fyrir þá sem vilja horfa á keppnina út um gluggann í Hveragerði má geta þess að ljósakeðjan upp og niður Reykjafjall er mynduð af keppendum sem glíma við fjallið í heilan sólarhring.

Hamarshöllin verður opin allan keppnistímann og þar inni verður sannkölluð karnivalstemning sem enginn ætti að missa af. Öllum er velkomið að koma við og sjá hvað þarna fer fram.

Skoðið myndbandið sem tekið var í desember 2017 hér https://vimeo.com/251565371

Nýjar fréttir