Hátíðahöld í tilefni hundrað ára fullveldis á Kirkjubæjarklaustri tókust afar vel og voru mættir yfir 100 gestir í Kirkjuhvol. Þar var frumsýnd ný stuttmynd: Að upplifa eldgos. Stuttmyndin er byggð á viðtölum sem nemendur Kirkjubæjarskóla og sjálfboðaliðar tóku en framleiðslufyrirtækið Beit tók að sér að fullvinna efnið. Skaftfellingar hafa upplifað mörg eldgos og náttúruhamfarir og við fullveldistökuna 1918 var hér víða aska í sköflum. Tónlistina í stuttmyndina samdi Albert Paczesniak og bókstaflega stal senunni með frábærum flutningi á frumsamdri tónlist. Albert er með meistarapróf í kórstjórn frá háskólanum í Rzeszow í Póllandi og hefur unnið að tónsmíðum með vinnu á Hótel Klaustri. Albert segir íslenska náttúru veita sér innblástur við tónsmíðarnar.
Strax í upphafi var markmið að fá íbúa í Skaftárhreppi til að vinna saman að undirbúningnum, bæði íbúa sem hafa verið lengi og þá sem nýlega eru fluttir í hreppinn. Auglýst var eftir fólki á íslensku og ensku og þannig fundust fagmenn á sviði myndbandavinnslu, Andreia Andrade sem er frá Portúgal og vefhönnuðurinn Nick Dawes sem er frá Bretlandi. Myndböndin má sjá á vefnum katla100.is sem Nick hannaði en þar má einnig finna ljósmyndir frá Kötlugosi, Grímsvatnagosinu 2011 og margt fleira. Meðal annars efnis er þar að finna alla fyrirlestra sem fluttir voru á ráðstefnu um Kötlugosið og haldin var í Vík 12. október síðastliðinn.
Fyrirlestur dagsins var í höndum Guðrúnar Gísladóttur prófessors í landafræði við Háskóla Íslands. Guðrún sagði frá fólkinu í Álftaveri sem var í bráðri hættu þegar Katla kom 12. október 1918. Erindið minnir okkur á hversu ótrúleg tilviljun það var að enginn skyldi farast í þessu gosi og hlaupinu sem kom í kjölfarið. Fleiri frásagnir á myndböndunum fjalla um tilviljanir sem komu í veg fyrir að mannskaði hlytist af Kötlugosinu og eru sumar þeirra frásagna með ólíkindum.
Tónlistarskóli Skaftárhrepps rammaði inn hátíðina, nemendur léku í upphafi og svo léku Zbigniew og Theresa Zuchowicz eftir fyrirlesturinn og enduðu með að allir sungu þjóðsönginn einum rómi.
Í Kirkjubæjarskóla á Síðu höfðu nemendur og starfsfólk sett upp glæsilega sýningu. Þar var hægt að lesa allt mögulegt um lífið á Íslandi árið 1918, öllu raðað í tímaröð frá janúar, þar sem frostaveturinn var sýndur í máli og myndum, þurrkasumarið sem kom í kjölfarið og síðan kom hver mánuðurinn af öðrum þar til kom að október þar sem Kötlugos og spænska veikin komu við sögu.
Hótel Klaustur hafði útbúið skemmtilega rétti sem voru allir úr hráefni sem var í boði á Íslandi 1918. Þar mátti sjá rúgbrauð með reyktri bleikju á spegli, skyr í pínulitlum krukkum, lifrarpylsu með karöflumús borið fram eins og snittur, hangikjöt með kartöflum og uppstóf borið fram í pínulitlum skálum, harðfisk og söl. Allt afar þjóðlegt en samt svo nútímalegt og smekklega fram borið. Boðið var upp á mysu til drykkjar, olli hún einhverjum vonbrigðum hjá mörgum en gladdi aðra.
Lilja Magnúsdóttir