-1.6 C
Selfoss

Jólasveinarnir koma á Selfoss á laugardaginn

Vinsælast

Á laugardaginn kemur verður stór stund hjá börnum á Selfossi því þá munu jólasveinarnir úr Ingólfsfjalli koma til byggða. Þeir heilsa upp á bæjarbúa og nærsveitunga á torginu við Pylsuvagninn á Selfossi, líkt og þeir hafa gert eins lengi og elstu menn muna og jafnvel lengur.

Dagskráin hefst korter fyrir fjögur með flutningi nokkurra jólalaga og klukkan fjögur koma jólasveinarnir akandi yfir Ölfusárbrúna. Þá verður sungið og trallað og haft gaman. Vonast sveinarnir til að sem flestir komi og taki þátt í gleðinni og klæðist jólasveinabúningum eða jólasveinahúfum. Boðið verður upp á frítt kakó á torginu.

Pakkaþjónustan rómaða
Ungmennafélag Selfoss mun aðstoða jólasveinana fyrir þessi jól eins og áður og verða þeim innan handar með allt sem snýr að jólasveinamálum. Má þar nefna að taka niður pantanir á jólaböll eða heimsóknir og einnig hina ómissandi pakkaþjónustu, en jólasveinarnir hafa lengi séð um að bera út pakka á aðfangadagsmorgun kl. 10:00–13:00. Tekið er á móti litlum pökkum í Tíbrá, félagsheimili Umf. Selfoss á Þorláksmessu kl. 18:00–21:00. Nánari upplýsingar og pantanir eru í síma 894 5070 eða í netfanginu umfs@umfs.is.

Nýjar fréttir