Notaleg stemmning var þegar kveikt var á jólatrénu í Hveragerði síðastliðinn sunnudag. Hátíðin hófst með stuttu ávarpi Bryndísar Eirar Þorsteinsdóttur. Bryndís talaði um jólaandann og minnti okkur á allt það sem við megum þakka fyrir og hvatti til hugsa til þeirra sem minna hafa. Því næst stigu börn úr barnakór Dagnýjar Höllu á stokk og sungu nokkur jólalög við undirleik. Börnin voru fljót að fanga fólkið með söng sínum en heyra mátti viðstadda taka undir og syngja „Bráðum koma blessuð jólin“. Börnin fengu dúndrandi lófaklapp að launum fyrir sönginn og hneigðu sig fyrir viðstöddum.
Jólatréð sjálft er hið reisulegasta tré, skreytt með marglitum ljósum. Í samtali við Aldísi Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra kom fram að í Hveragerðisbæ hefur það verið árleg hefð að bæjarbúar bjóði fram tré til að verða jólatré bæjarins. Að þessu sinni voru það 4 til 5 tré sem valið stóð á milli. Tréð sem varð hlutskarpast áttu hjónin Björn Pálsson og Lilja Haraldsdóttir í Heiðarbrún 51. Það var barnabarn þeirra hjóna, Hugi Þór Haraldsson, þriggja ára, sem tendraði upp í jólaljósunum á trénu við mikinn fögnuð viðstaddra. Hann var ekki lengi að smella upp rofanum og ljósmyndari blaðsins rétt náði að smella mynd af kappanum áður en hann var rokinn á braut að skoða ljósin nánar.
Það leið ekki á löngu áður en hróp og köll hófu að berast um loftið. Þar voru komnir jólasveinar sem höfðu fengið veður af öllum börnunum sem þarna voru saman komin. Það urðu mikil fagnaðarlæti þegar sveinkarnir stigu á stokk og sungu jólalög. Þrátt fyrir að kári hafi nætt um mannskapinn var ekki að sjá annað en allir hefðu skemmt sér vel og farið heim í sannkölluðu jólaskapi.