-2.7 C
Selfoss

ML fær fjórða Grænfánann

Vinsælast

Menntaskólinn að Laugarvatni vinnur gott starf í umhverfismálum í samstarfi við Landvernd. Áhugasamir nemendur vinna að því saman að gera skólann og heiminn allan umhverfisvænni. Þetta gera þeir af hugsjóninni einni saman. Annað hvert ár þurfa skólar að sækja um nýjan Grænfána og nú í haust var komið að því hjá okkur. Fyrr í haust kom Katrín Magnúsdóttir, fulltrúi frá Landvernd, og tók út starfið. Hún hélt jafnframt fyrirlestur um plast og leiðir til að minnka notkun á því. Þann 13. nóvember kom Katrín svo aftur færandi hendi með nýjan Grænfána og viðurkenningarskjal. Umhverfisnefndin tók himinsæl við fánanum og flaggaði honum, en gamla fánann máttu þau eiga til minningar og nú er hann veggteppi á Fjarvistinni (heimavist útskriftarnema). Katrín minntist á það í ræðu við athöfnina, að hún væri mjög hrifin af kraftinum í umhverfisnefndinni og að þessir krakkar væru góð fyrirmynd fyrir aðra. Hún tók sem dæmi að hún fékk að skoða herbergi hjá einum í nefndinni en í því var fullkomið ruslaflokkunarkerfi.

Framtíðin í umhverfismálum er björt ef unga fólkið okkar er svona drífandi. Ég hvet alla til að taka þátt í þessu stóra verkefni: að gera heiminn að betri stað fyrir framtíðina. Við höldum alla vega ótrauð áfram hér í ML.

Heiða Gehringer, formaður umhverfisnefndar ML

Nýjar fréttir