-8.3 C
Selfoss

Menningardagskrá barna í Listasafninu

Vinsælast

Í mörg ár hafa Listasafn Árnesinga og Bókasafnið í Hveragerði haft samstarf um að bjóða upp á dagskrá með myndlist, ritlist og tónlist fyrir fullorðna 1. desember í Listasafninu í Hveragerði. Í tilefni aldarafmælis fullveldis Íslands verður dagskráin í ár tileinkuð börnum – fulltrúum framtíðarinnar. Grunnskólinn í Hveragerði er samstarfsaðili safnanna og Tónlistarskóli Árnesinga kemur einnig að dagskránni, sem verður í þetta sinn algjörlega í höndum barna og ungmenna.

Undanfarið hafa nemendur GÍH ásamt kennurum sínum eytt nokkrum tíma í að velta fyrir sér framtíðinni út frá nútíð og fortíð og skilað hugsunum sínum frá sér í formi mynda og texta. Sett hefur verið upp sýning á verkum þeirra í Bókasafninu í Hveragerði og Listasafni Árnesinga. Sýningin er opin á opnunartíma safnanna og stendur út árið.

Á menningardagskránni 1. desember, munu börn og unglingar flytja eigin ritverk og segja frá eigin myndverkum, flytja eigin tónlist og annarra, stjórna skemmtilegum app-spurningaleik og kveðast á. Ýmislegt fleira verður til gamans gert og viðurkenningar verða veittar fyrir athyglisverð rit- og myndverk á sýningunni að mati dómnefnda.

Dagskráin hefst kl. 14 í Listasafni Árnesinga í Hveragerði og stendur í u.þ.b. 2 klst. Boðið verður upp á veitingar. Enginn aðgangseyrir og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Verkefnið er styrkt af sjóði aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands og Uppbyggingarsjóði Suðurlands.

Nýjar fréttir