3.9 C
Selfoss
Home Fréttir Listhandverk í heimabyggð í Hveragerði

Listhandverk í heimabyggð í Hveragerði

0
Listhandverk í heimabyggð í Hveragerði

Handverk og hugvit undir Hamri í Hveragerði fagnar tíu ára starfsafmæli á þessu ári. Handverkshópurinn hefur komið sér vel fyrir í húsinu Egilstöðum við Skólamörk. Húsnæðið er lagt til af Hveragerðisbæ fyrir listsköpun í bænum. Í húsinu er hver fermeter vel nýttur af listafólki í handverki, myndlist og tónlist.

Sex félagskonur hafa komið sér vel fyrir á neðri hæð hússins, en það eru þær; Andrína Jónsdóttir sem tálgar og málar farfugla, Oddný Runólfsdóttir sem vinnur prjóna- og leðurvörur, skart og myndir úr hráefni frá fjörunni, Violette Meyssonnier er með handgerðar sápur, kerti og skart og Fríða M. Þorsteinsdóttir, Hrönn Waltersdóttir og Steinunn Aldís Helgadóttir sem vinna nytjahluti í leir.

Andrína Jónsdóttir.

Á vinnustofunni hittum við Andrínu og spurðum hvaða gildi það hefði fyrir hana að hafa aðstöðu sem þessa fyrir listsköpun sína: „Það er mjög dýrmætt fyrir mig að hafa þessa vinnuaðstöðu og er ég Hveragerðisbæ alveg sérstaklega þakklát. Svo er líka yndislegt og mikil lífsfylling fyrir mig að vinna með sköpun í svona frábærum félagskap eins og er hér. Við komum og förum, allt eftir því sem hentar. Ég vinn á daginn í leikskóla og er, sem dæmi, meira hér seinnipart dags og um helgar.“

Hvers konar handverki einbeitir þú þér helst að? „Ég tálga og mála farfugla í Linditré, sem er mikið nostur og nákvæmisvinna, en í gegnum árin hef ég líka unnið krosssaumsverk og málað myndir með olíu- og vatnslitum. Náttúran, sköpun og listir hafa alltaf haft mikla þýðingu fyrir mig og verið stór gleðigjafi í mínu lífi.“

Hvað er framundan hjá ykkur í félaginu?„Nú þegar aðventan gengur í garð, breytum við vinnustofunni okkar í sölugallerí og bjóðum bæjarbúum að koma að skoða og kaupa handverkið okkar, en þetta gerum við tvisvar til þrisvar á ári,” segir Andrína og snýr sér aftur að farfuglunum.

Vinnustofan Handverk og hugvit við Skólamörk verður opin laugardagana 1., 8. og 15. desember kl. 12:00–17:00. Þar er hægt að næla sér í einstakt listhandverk á góðu verði í jólapakkann! Kaffi á könnunni, piparkökur og heit glögg.