3.9 C
Selfoss
Home Fréttir Frú Prússólín og barnaverndin

Frú Prússólín og barnaverndin

0
Frú Prússólín og barnaverndin
Anna Rut Tryggvadóttir.

Eflaust man hvert mannsbarn eftir Línu Langsokk, sjálfstæðu stúlkunni sem bjó ein á Sjónarhóli ásamt herra Níels og Litla Karli. Frú Prússólín kom þar einnig við sögu, barnaverndargrýlan í bláa kjólnum með blómahattinn, sem elti Línu á röndum og ætlaði að koma henni á vandræðaheimilið. Eflaust átti frú Prússólín margt sammerkt með barnavernd á tíma Astridar Lindgren en sem betur fer hefur margt breyst til hins betra. Í dag starfa starfsmenn barnaverndar eftir barnaverndarlögum nr. 80/2002 en þar er markmið barnaverndar skilgreint vítt eins og sjá má í 2. gr. laganna: „Markmið laga þessara er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Leitast skal við að ná markmiðum laganna með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við“.

Hverjum sem hefur ástæðu til að ætla að ofangreindum þáttum sé ábótavant ber samkvæmt lögum að tilkynna slíkt til barnaverndar. Tilkynning til barnaverndar er ekki kæra heldur fremur beiðni um aðstoð fyrir viðkomandi barn eða fjölskyldu.

Hver og ein tilkynning er metin af starfsfólki barnaverndar og fer í könnun ef rökstuddur grunur er um að tilefni sé til. Markmið könnunar er meðal annars að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barnsins og meta þörf fyrir úrræði. Ef niðurstaða könnunar leiðir í ljós að þörf sé á úrræðum, barni og fjölskyldunni til stuðnings, er gerð áætlun um meðferð máls þar sem leitast er við að bæta aðstæður barnsins og eftir atvikum fjölskyldunnar. Að sjálfsögðu er hvert mál einstakt og úrræðin og inngripin einnig en starfsmenn barnaverndar vinna ávallt með hagsmuni barnsins í fyrrirúmi. Ef þú hefur vitneskju eða grun um að velferð barns sé stofnað í hættu að einhverju leiti, hafðu þá samband við fulltrúa barnaverndar í því umdæmi sem barnið býr í og ráðfærðu þig við starfsmann barnaverndar.

Anna Rut Tryggvadóttir, félagsráðgjafi MA hjá barnavernd Árborgar.