-5 C
Selfoss
Home Fréttir Amma sagði að það væri nægur tími til að sofa í eilífðinni

Amma sagði að það væri nægur tími til að sofa í eilífðinni

0
Amma sagði að það væri nægur tími til að sofa í eilífðinni
Sigurður Sigursveinsson.

Sigurður Sigursveinsson, lestrarhestur Dagskrárinnar, er fæddur og uppalinn í Mýrdalnum. Kenndi um hríð á Akureyri, á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp og í Reykjavík áður en hann flutti á Selfoss árið 1983. Hann bjó ásamt fjölskyldu sinni um tveggja ára skeið á Nýfundnalandi í Kanada og stundaði þar nám. Síðan þá hefur Sigurður starfað við Fjölbrautaskóla Suðurlands og Háskólafélag Suðurlands auk tveggja ára í menntamálaráðuneytinu. Á skólaárunum vann hann meðal annars við að grafa framræsluskurði og veltir því nú fyrir sér hvort hann endi á því að moka ofan í þá.

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Það er bókin Undur yfir dundu sem kom út nú í sumar eftir Má Jónsson prófessor. Í bókinni er að finna frásagnir sjónarvotta af fimm eldgosum í Kötlu; 1625, 1660,1721, 1755, 1823 og 1860. Katla jarðvangur (Katla Geopark) er útgefandi bókarinnar en í haust var einmitt rétt öld liðin frá síðasta Kötlugosi. Svona í framhjáhlaupi má geta þess að ráðstefnan sem var haldin í Vík af þessu tilefni var einstaklega vel heppnuð og hana sóttu hátt á fjórða hundrað manns í þessu fjögur hundruð manna þorpi.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?
Í seinni tíð eru það bækur sem fjalla um náttúrufar og menningu, einkum svæða sem ég hef heimsótt eða ætla að heimsækja bæði innan lands og utan. Á menntaskólaárunum voru það hins vegar glæpasögur á ensku, las ég þá til dæmis töluvert Alistair MacLean og Desmond Bagley. Reyndar einnig ensk fótboltablöð en þau falla nú líklega ekki undir bókmenntir eða hvað?

Varstu alinn upp við lestur?
Ég varð víst fljótt læs, um fjögurra ára aldur er mér sagt. Þá var ég alæta á lestrarefni, töluvert mikið var til af bókum á æskuheimilinu í sveitinni meðal annars Íslendingasögurnar og ekkert sjónvarp eða samfélagsmiðlar til að draga athygli frá bókunum. Man ekki til þess að það hafi verið lesið fyrir mig, gæti þó hafa verið í frumbernsku. Bækur Ármanns Kr. Einarssonar voru í uppáhaldi hjá mér en af þýddum bókum líklega helst bækur Enid Blyton og bækurnar um Grím grallara.

En hvað einkennir lestrarvenjur þínar?
Óþarflega mikill hluti lestrar hjá mér seinni árin er af skjá og tengt vinnu. Hlakka til ellinnar þegar meira ráðrúm verður vonandi til lestrar. Reyndar segir mér eldra fólk að það sé aldrei meira að gera en þegar maður hætti að vinna. Þetta kann því að vera tálvon og þá þarf kannski að grípa til röksemdar ömmu sem sagði að það væri nægur tími til að sofa í eilífðinni, kannski verður það eins með lesturinn!

Áttu þér uppáhaldshöfund?
Nei, eiginlega ekki, les í rauninni ekki nóg til að geta eignað mér uppáhaldshöfund. Hef þó haft sérstaka ánægju af að lesa bækur Vilborgar Davíðsdóttur. Finnst mjög áhugavert hvernig hún leggur sig fram um að nálgast tíðaranda og aðstæður þess fólks sem hún gerir að söguefni sínu. Einar Kárason stendur svo auðvitað fyrir sínu. Einnig Gísli Pálsson, til dæmis með bókum sínum um Hans Jónatan og Fjallið sem yppti öxlum. En um tíma má segja að hinn dularfulli séra Björn Jónsson hafi verið minn uppáhaldshöfundur. Starfsmenn Fjölbrautaskóla Suðurlands heimsóttu séra Björn um árabil á Kaffi Krús á fimmtudagskvöldum yfir ölglasi eða kaffibolla. Þar urðu bókmenntir til því gestir skrifuðu gjarnan kveðju til prestsins í sérstaka bók sem varðveitt var á kaffihúsinu. Á ferðum sínum erlendis áttu menn það svo til að senda séra Birni póstkort og gera margir enn.

Hefur bók rænt þig svefni?
Ekki í seinni tíð. Ég er svo lánsamur að eiga mjög gott með svefn og er eiginlega hættur að reyna að lesa uppi í rúmi, er yfirleitt sofnaður áður en ég veit af. Reyndar rifjast upp að á árum áður átti ég það til að leggja ekki frá mér glæpasögur fyrr en að loknum lestri.

En að lokum Sigurður, hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?
Held að það verði nú bið á því. En ef svo ólíklega vildi til að ég skrifaði bók hugsa ég að Mýrdalurinn og kannski nágrannasveitir yrðu sögusviðið.