3.9 C
Selfoss

Nýir tímar hjá knattspyrnudeild Hamars

Vinsælast

Aðalfundur Knattspyrnudeildar Hamars var haldinn þann 21. október sl. Töluverðar breytingar voru á stjórn og skipulagi deildarinnar. Þorsteinn T. Ragnarsson , Matthías Þórisson og Kristrún Heiða Þórarinsdóttir Busk ákváðu að gefa ekki kost á sér áfram í stjórn. Þorsteinn og Matthías hafa unnið lengi fyrir knattspyrnudeildina og Kristrún kom inn af krafti fyrir ári síðan. Ný stjórn var kosin, auk þess sem gerð var breyting og skipað í yngriflokkaráð og meistaraflokksráð á fundinum.

Stjórn Knattspyrnudeildar Hamars skipa: Ágúst Örlaugur Magnússon formaður, Berglind Kvaran Ævarsdóttir gjaldkeri og Sigurður Einar Guðjónsson ritari. Meðstjórnendur eru Guðbjörg Rósa Björnsdóttir, Þorkell Pétursson, Kolbrún Vilhjálmsdóttir og Hlynur Kárason.

Yngriflokkaráð skipa: Kolbrún Vilhjálmsdóttir formaður, Helga Dögg Snorradóttir gjaldkeri og Kolbrún Guðmundsdóttir ritari.Aðrir í ráðinu eru Hafsteinn Þór Auðunsson, Sara Margrét Hammer, Þráinn Ómar Jónsson og Ágúst Logi Valgeirsson

Meistaraflokksráð skipa: Hlynur Kárason formaður, Berglind Kvaran Ævarsdóttir gjaldkeri og Jónas Gunnþór Jónsson. Aðrir í ráðinu eru Kristinn Hólm Runólfsson, Jóhann Wolfam, Steinar Logi Hilmarsson, Aron Karl Ásgeirsson og Guðmundur B Baldvinsson.

Ágúst Örlaugur er enginn nýgræðingur innan knattspyrnudeildar Hamars þar sem að hann hefur verið leikmaður meistaraflokks, þjálfari yngri flokka, framkvæmdastjóri og nú formaður.

Ágúst Örlaugur Magnússon nýr formaður knattspyrnudeildar Hamars.

Ágúst hefur þetta að segja um komandi tíma:

„Ég sé Hamar blómstra í náinni framtíðinni með öllu þessu flotta fólki sem er tilbúið að leggja sig fram við að gera gott félag enn betra. Okkar markmið er að hlúa vel að öllum okkar stelpum og strákum sem æfa hjá okkur og taka vel á móti nýjum iðkendum. Við ætlum að bjóða upp á góða þjálfun og utanumhald þar sem allir fá að njóta sín við topp aðstæður til knattspyrnuiðkunnar í Hveragerði. Við viljum gefa ungum knattspyrnumönnum úr Hveragerði og Suðurlandi tækifæri í meistaraflokki þar sem okkar markmið er að gera umgjörðina í kringum félagið góða og búa svo til góða stemningu á Grýluvelli. Okkar draumur er svo að geta búið til meistaraflokk kvenna í náinni framtíð þar sem við höfum margar ungar og efnilegar stelpur í okkar yngri flokkum. Nýtt fólk í stjórn og ráðum deildarinnar er strax byrjað að vinna í því að móta stefnu og markmið félagsins og skipuleggja komandi tíma. Ég er gríðarlega stoltur og þakklátur að fá að taka þátt í uppbyggingu félagsins með öllu þessu nýja fólki sem gengur nú til starfa fyrir félagið. Framtíðin er björt í Hveragerði og mun Hamar vera eftirsóknarvert og aðlaðandi á öllum sviðum. Það er frábært að fá allt þetta góða fólk inn í deildina og eru allir meðlimir tilbúnir í að leggja sitt á vogaskálarnar til að gera gott félag enn betra.

Markmiðið hjá nýju fólki er að búa til jákvætt og skemmtilegt knattspyrnuumhverfi fyrir stelpur og stráka í Hveragerði. Við viljum efla starfið og fá foreldra og bæjarbúa í lið með okkur.

Markvarðarskóli Gunnleifs Gunnleifssonar. Mynd: Hamar.

Í október var Markavarðarskóli Gunnleifs Gunnleifssonar með helgarnámskeið í samstarfi við deildina og er óhætt að segja að efnilegir sunnlenskir markmenn séu að koma upp úr yngriflokkum á Suðurlandi og erum við spennt fyrir áframhaldandi samstarfi við Gunnleif.

Hið sívinsæla Kjörísmót var sunnudaginn 25.nóv. sl. og voru það 6.flokkur drengja sem hófu leik. Breytt fyrirkomulag er á mótinu að þessu sinni og verður Kjörísmótið einnig nýársmót sem haldið verður 12.–13. og 19.–20. janúar fyrir 7. flokk kk. og kvk., 6. flokk kvk. og 5. flokk kk. og kvk.

Jóhann Bjarnason ásamt Ágústi formanni og Jónasi ritara. Mynd: Hamar

Nú á dögunum var Jóhann Bjarnason ráðinn sem þjálfari meistaraflokksins. Hefur hann gífurlega mikla reynslu sem þjálfari. Gerður var tveggja ára samningur við Jóhann sem hóf störf á sinni fyrstu æfingu í síðustu viku. Jóhann er frá Selfossi og hefur starfað sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla á Selfossi sl. þrjú ár. Þar á undan var hann aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna og þjálfari Árborgar. Einnig hefur hann mikla reynslu úr yngri flokka þjálfun og hefur hann t.d þjálfað yngri flokka Hamars á árum áður. Mikil ánægja er hjá knattspyrnudeildinni með ráðningu Jóhanns.

Meistaraflokkur hefur strax hafið undirbúningstímabil fyrir komandi átök næsta sumar og mun liðið taka þátt í æfingamóti fyrir áramót og spila þar þrjá leiki. Þéttur kjarni af leikmönnum er til staðar sem félagið ætlar að hlúa vel að og munu þeir fá tækifæri til að bæta sig sem leikmenn í góðri þjálfun og umgjörð nýrrar stjórnar við heimsklassa knattspyrnuaðstæður í Hveragerði.

Á næstunni munum við kynna nýjungar hjá deildinni og vera dugleg að kynna viðburði og starfið okkar í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum.”

Nýjar fréttir