-4.4 C
Selfoss

Höfðingleg gjöf Símonar í Dalseli

Vinsælast

Símon Oddgeirsson í Dalsseli undir Eyjafjöllum færði á dögunum Skógræktinni höfðinglega gjöf, 68 hektara landspildu á Markarfljótsaurum sem hann hefur grætt upp og ræktað á skóg með stuðningi Skógræktarinnar.

Svæðið var að mestu gróðurlausir malaraurar þegar Símon hófst handa við skógrækt og uppgræðslu í kringum síðustu aldamót. Nú hefur svæðið verið grætt upp og þar eru uppvaxandi skógar sem Símon hefur nú falið Skógræktinni til áframhaldandi varðveislu, gróðursetningar og umsjár.

Hæstu trjábeltin á svæðinu sem eru að nálgast tíu metra hæð skapa skjól fyrir nærliggjandi svæði. Svæðið er norðan við þjóðveg 1 á móts við afleggjarann að ferjuhöfninni í Bakkafjöru. Þar eru tjarnir með ríkulegu fuglalífi og stefnir Skógræktin að því að gera svæðið aðgengilegt almenningi á næstu árum.

Símon Oddgeirsson skógarbóndi og Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri takast í hendur þegar Símon gaf Skógræktinni formlega skógræktarsvæði sitt á Markarfljótsaurum. Ljósmynd: Hreinn Óskarsson.

Símon Oddgeirsson er ættaður frá Eyvindarholti en hefur búið í Dalsseli, lengst af í félagsbúi með Einari bróður sínum. Hann dvelur nú í hárri elli á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Kirkjuhvoli á Hvolsvelli.

Skógræktin þakkar Símoni þessa miklu gjöf. Leitast verður við að halda við að áfram góðu starfi Símonar á Markarfljótsaurum.

Nýjar fréttir