Árið 2018 eiga bæði Pólland og Ísland 100 ára fullveldisafmæli. Pólverjar endurheimtu sjálfstæði sitt þann 11. nóvember 1918 og Ísland varð fullvalda ríki 1. desember 2018. Af þessu tilefni efndu pólskir og íslenskir íbúar og listamenn í Mýrdalshreppi til tónlistarhátíðar í Víkurkirkju.
Sendiherra Póllands á Íslandi, Gerard Pokruszyński, flutti ávarp bæði á íslensku og pólsku og sr. Haraldur M. Kristjánsson flutti ávarp. Þjóðsöngvar beggja þjóða voru sungnir.
Pólskir krakkar sungu og fjölskylduhljómsveitin Fermata flutti pólska tónlist. KD kórinn, Syngjandi – kór eldri borgara og Brian Haroldsson fluttu íslenska tónlist. Einar Freyr Elínarson trúbador flutti frumsamda tónlist og hljómsveitin Sykurpúðarnir lék og söng íslensk dægurlög. Stjórnendur og kynnar voru Beata Rutkowska og Anna Björnsdóttir
Eftir tónleikana var öllum viðstöddum boðið að þiggja pólskar og íslenskar veitingar á Ströndinni í Víkurskála. Þar var flutt lifandi tónlist og frelsisbaráttu beggja þjóða gerð skil í máli og myndum.
Styrktaraðilar hátíðarinnar voru: Mýrdalshreppur, SASS, Ströndin, Víkurkirkja, konur sem gáfu veitingar, Jarek Laczkowski teiknari og Þórir N. Kjartansson ljósmyndari.
Hátíðin var mjög vel sótt og tókst í alla staði vel.