3.9 C
Selfoss
Home Fréttir Almenningssamgöngur á Suðurlandi í upplausn náist ekki samningar við Vegagerðina

Almenningssamgöngur á Suðurlandi í upplausn náist ekki samningar við Vegagerðina

0
Almenningssamgöngur á Suðurlandi í upplausn náist ekki samningar við Vegagerðina

Ef samningar nást ekki við ríkið um aukið fjármagn (50 m.kr.) til almenningssamgangna á og uppgjör á útistandandi halla ársins 2018 upp á 36 m.kr. telur ársþing SASS 2018 nauðsynlegt að hætta rekstri almenningssamgangna um komandi áramót. Það er ljóst að með þessum orðum munu almenningssamgöngur í núverandi mynd breytast verulega á Suðurlandi verði ekki samið um lausn á málinu. Slíkt myndi hafa afgerandi áhrif á samfélagið á Suðurlandi m.a. nemendur í Fjölbrautaskóla Suðurlands að sækja nám. Í samtali við Evu Björk Harðardóttur, formann stjórnar SASS kemur fram: „Við erum hvorki að fara að skerða verulega þjónustuna við íbúa okkar né velta tapi af rekstri almenningssamgangna síðasta árs yfir á sveitarfélögin. Við sveitarfélögin getum ekki tekið að okkur verkefni frá ríkinu með þeim skilaboðum að með því fylgi fjármagn og þurfa síðan að sitja uppi með tapið og fá í kjölfarið kröfu um að skera niður þjónustuna. Með öllu óásættanleg staða.“

Í fundargerð stjórnar SASS kemur fram að ríkið hafi vilja til þess að landshlutasamtökin sinni rekstrinum áfram á meðan unnið er að stefnumörkun í málaflokknum. Hins vegar er bent á af stjórninni að sjö mánuðum eftir að samningum um almenningssamgöngur hafi verið sagt upp hafi Vegagerðin gert kröfu um verulegar breytingar á leiðakerfinu á Suðurlandi. Með þeim breytingum telur stjórn SASS að vegið sé að virkni leiðarkerfis Strætós og breytt kerfi geti varla talist til almenningssamgangnakerfis sem gagnist samfélaginu á Suðurlandi og því með öllu óásættanlegt að fallast á þá tillögu.

Í ljósi hve málið er alvarlegt hefur stjórn falið formanni stjórnar SASS og framkvæmdastjóra að gera lokatilraun til þess að ná samningum við Vegagerðina, en hún sinnir málaflokknum fyrir hönd ríkisins. Þá kemur fram að náist ekki ásættanleg niðurstaða munu samtökin hætta rekstri almenningssamgangna um komandi áramót.