3.9 C
Selfoss
Home Fréttir Góður árangur gleður samfélagið

Góður árangur gleður samfélagið

0
Góður árangur gleður samfélagið
Handknattleikslið Selfoss eftir seinni leikinn við Dragunas frá Litháen í 1. umferð Evrópukeppninnar.
Kristján Eldjárn Þorgeirsson.

Meistara­flokk­ur karla á Selfossi komst í þriðju umferð Evrópu­keppni félagsliða í handknattleik þar sem liðið mætir pólska liðinu Azoty-Puławy. Fyrri leik­ur­inn fór fram í Póllandi um sl. helgi þar sem Selfoss tapaði með sjö mörkum, 33-26. Á laugardaginn er síðan seinni leikur liðanna þar sem verkefnið verður erfitt en alls ekki óyfirstíganlegt. Leikur­inn fer fram laugardaginn 24. nóvember kl. 18:00 í Hleðsluhöllinni og hefst upphitun fyrir leikinn tveim­ur tím­um fyrr.

Ég fór að velta fyrir mér þess­um frábæra árangri liðsins okkar sem er komið þetta langt í Evrópu­keppninni. Leikmanna­hópurinn er nánast allur skipaður heimamönnum, aðeins eru tveir leikmenn í hópnum sem ekki eru uppaldir Selfyssingar. Þessi stað­reynd, ásamt árangri liðsins í Evrópukeppninni og í Olís­deild­inni gleður fólk hér á Selfossi og í næsta nágrenni. Þetta heyrir maður á umtalinu um liðið út á við. Allir gleðjast yfir árangrinum og eru jákvæðir í garð liðsins og umgjarðarinnar í kringum hand­bolt­ann hér á Selfossi, bæði yngri flokka sem og meistaraflokka karla og kvenna. Fyrirtæki og stofn­anir eru handboltanum vel­vilj­uð og vilja greinilega styrkja og styðja við liðið sitt með marg­víslegum hætti, auglýsingum á gólfi og búningum, áheitum á lið­ið, svo eitthvað sé nefnt.
Strákarnir í liðinu eru líka flott­ar fyrirmyndir fyrir yngri kynslóðina og eru broshýrir, jákvæð­ir og glaðlegir í garð krakk­anna. Ungir strákar á Sel­fossi vilja vera eins og Elvar Örn, Haukur eða Einar. Það er glampi í augum lítilla krakka þegar einhver leikmaður liðsins segir hæ við þá eða gefur þeim fimmu.

Allt þetta sem að framan er talið hefur jákvæð áhrif á sam­félagið. Ég vil hvetja fólk til að fjölmenna á leikinn á laug­ar­daginn, sem og aðra leiki liðsins. Selfoss er mitt lið. Áfram Selfoss

Kristján Eldjárn Þorgeirsson