-6.6 C
Selfoss

Ráðherra úthlutar 120 milljónum krónum í verkefnastyrki til að efla byggðir landsins

Vinsælast

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur undirritað samninga við landshlutasamtök sveitarfélaga um níu verkefnastyrki sem veittir eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018–2024. Að þessu sinni var 120 milljónum króna úthlutað fyrir árið 2018 til sértækra verkefna á sóknaráætlunarsvæðum. Alls bárust 26 umsóknir um styrki að fjárhæð tæpar 441 m.kr.

„Það er okkur mikil ánægja að unnt sé styrkja mörg áhugaverð og fjölbreytt verkefni um land allt á grundvelli nýrrar byggðaáætlunar. Ákveðið var að veita styrki að fengnum umsóknum en þetta er í fyrsta sinn sem framlög úr byggðaáætlun eru sett í samkeppnispott með þessum hætti. Fleiri samkeppnispottar af þessu tagi verða auglýstir jafnt og þétt,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við undirritun samninganna í dag.

Markmiðið með framlögum til sértækra verkefna sóknaráætlanasvæða er að tengja sóknaráætlanir landshluta við byggðaáætlun og færa heimafólki aukna ábyrgð á ráðstöfun fjármuna. Áhersla er lögð á að styrkja svæði þar sem er langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf. Verkefni sem hljóta styrk skulu nýtast einstökum svæðum eða byggðarlögum innan landshlutans, eða landshlutanum í heild. Íbúaþróun, samsetning atvinnulífs og atvinnustig og meðaltekjur var meðal þess sem lagt til grundvallar við mat á umsóknum.

Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi hlaut styrk til að gera aðgerðaáætlun um sjálfbæra lýðfræðilega þróun miðsvæðis Suðurlands. Á miðsvæðinu er mikil íbúafjölgun vegna fjölgunar erlendra ríkisborgara. Á svæðinu er mikil íbúavelta, lág laun og einhæfni atvinnulífs. Unnin verður rannsókn, móttökuáætlun fyrir útlendinga, markaðsgreining og verkefnisáætlun. Markmiðið er að efla samfélagslega sjálfbærni svæðisins. Verkefnið er styrkt um 13,5 m.kr.

Þriggja manna valnefnd fór yfir umsóknir og gerði tillögur til ráðherra. Byggðastofnun annast umsýslu verkefnastyrkjanna. Verkefnin níu sem hljóta styrk árið 2018 eru:

  • Innviðauppbygging vegna gagnavers á Blönduósi – 20.000.000 kr. árið 2018. Fær einnig 25 milljónir á ári næstu þrjú ár á eftir.
  • Vínlandssetur í Dalabyggð – 15.000.000 kr.
  • Gestastofa Snæfellsness – 15.000.000 kr.
  • Aðgerðaáætlun um sjálfbæra lýðfræðilega þróun miðsvæðisins – 13.500.000 kr.
  • Nýsköpunar- og samfélagsmiðstöðvar á Vestfjörðum – 15.000.000 kr.
  • Menningarbærinn Seyðisfjörður – stuðningur við faglegt starf – 15.000.000 kr.
  • Stórskipahöfn í Finnafirði. 18.000.000 kr.
  • Framleiðsla rafmagns með lághitavatni úr borholu Æ3 við Skógarlón í Öxarfirði – 3.500.000 kr. á ári í þrjú ár.
  • Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði – 5.000.000 kr.

Í valnefndinni sátu þau Elín Gróa Karlsdóttir, verkefnisstjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Magnús Karel Hannesson, fv. starfsmaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og Stefanía Traustadóttir, sérfræðingur í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, sem var formaður. Með valnefnd störfuðu Jóhanna Sigurjónsdóttir, sérfræðingur í ráðuneytinu og Sigríður K. Þorgrímsdóttir sérfræðingur hjá Byggðastofnun. Skipun valnefndar og mat umsókna voru í samræmi við reglur um úthlutun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á framlögum sem veitt eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018–2024.

Nýjar fréttir