5.6 C
Selfoss

Listamannaspjall með Önnu Hallin og Guðjóni Ketilssyni

Vinsælast

Á morgun, sunnudaginn 18. nóvember kl. 14:00, munu listamennirnir Anna Hallin og Guðjón Ketilsson spjalla við gesti um listaverk sín á sýningunni Halldór Einarsson í ljósi samtímans í Listasafni Árnesinga í Hveragerði. Verk þeirra eru ólík innbyrðis þó handverkið sameini þau og á mismunandi hátt kallast þau á við verk Halldórs.

Aðalefniviður Guðjóns hefur um langt skeið verið tré eins og hjá Halldóri og verk Guðjóns sem bera heitið Verkfæri eru líka eins konar minn, eða óður til verkfæra og handlagni. Í nafnlausu verki eftir Guðjón hefur hann líka umbreytt gömlu húsgangi í skúlptúr og þrátt fyrir eigin merkingu kallast skúlptúrinn þar með á við tímabil í ferli Halldórs er hann vann við tréskurð í húsgagnaverksmiðju í Chicago.

Verk Önnu bera heitin Valdakonur, Listamenn og Skriffinnar og eiga það sameiginlegt að vera portrett en af ólíkum toga og unnin með mismunandi tækni. Þau kallast á við fjölbreytt portret Halldórs, en að auki eiga Anna og Halldór það sameiginlegt að vera fædd og uppalin í öðru landi en þau settust að í, til starfa.

Guðjón vinnur að mestu við gerð teikninga og skúlptúra. Í verkum hans er mannslíkaminn í forgrunni, nærvera hans eða fjarvera. Guðjón hefur haldið yfir þrjátíu einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga á Íslandi og í Evrópu, Bandaríkjunum, Kína og Ástralíu. Verk Guðjóns eru í eigu allra helstu listasafna á Íslandi, svo og nokkurra erlendis. Auk þess að vera boðið að vinna að list sinni á ýmsum alþjóðlegum vinnustofum, hefur hann verið valinn til þátttöku í samkeppnum um gerð listaverka í opinberu rými og má sjá verk hans í opinberu rými í Reykjavík og á Seyðisfirði.

Anna hefur fyrst og fremst fengist við mótun og efniviðutinn gjarnan leir. Undanfarið hefur hún einnig unnið teikningar. Hún hefur á ferli sínum tekið þátt í fjölmörgum samsýningum hérlendis og erlendis og haldið einkasýningar víða. Verk eftir hana eru m.a. í helstu listasafna Íslands. Anna hefur um árabil unnið að myndlist í samstarfi við myndlistarkonuna Olgu Bergmann. Samstarf þeirra er ekki síst á sviði myndlistar í opinberu rými og sem dæmi má nefna verðlaunatillögu þeirra að listaverkum fyrir nýja fangelsisbyggingu á Hólmsheiði.

Sýningin Halldór Einarsson í ljósi samtímans hefur verið framlengd til 16. desember. Safnið er opið fimmtudaga til sunnudaga kl. 12–18. Aðgangur er ókeypis, líka á spjallið og allir velkomnir.

Nýjar fréttir