3.9 C
Selfoss
Home Fréttir Gríðarlega erfitt verkefni gegn sterku liði

Gríðarlega erfitt verkefni gegn sterku liði

0
Gríðarlega erfitt verkefni gegn sterku liði
Þórir Ólafsson.

Selfoss mætir pólska liðinu Azoty-Puławy í 3. umferð Evrópukeppni félagsliða núna í nóvember. Fyrri leikurinn fer fram laugardaginn 17. nóvember í Póllandi. Heimaleikurinn fer fram á Selfossi viku síðar, laugardaginn 24. nóvember kl. 18 í Hleðsluhöllinni. Með sigri fer liðið í riðlakeppni, en þangað hefur ekkert annað íslenskt félag komist áður.

Azoty-Puławy er öflugt lið og hefur verið eitt af toppliðunum í pólsku deildinni undanfarin ár. Liðið hefur verið fastagestur í Evrópukeppnum undanfarin ár og komst m.a. í riðlakeppni Evrópukeppni félagsliða í fyrra.

Þórir Ólafsson, aðstoðarþjálfari Selfoss, þekkir til pólsks handbolta eftir þriggja ára veru þar ytra þegar hann spilaði með Vive Kielce.
„Áhuginn á handbolta í Póllandi er mikill og hefur aukist síðustu ár. Efstu tvö liðin eru langbest. Síðan koma þarna 4 til 5 nokkuð góð lið sem eru kannski á pari við bestu liðin hér heima.“

En hvað geturu sagt okkur um liðið Azoty-Puławy?
„Liðið er nokkuð breytt frá því ég spilaði úti. Það eru þó nokkrir sterkir leikmenn sem ég kannast við, m.a. landsliðsmenn frá Svartfjallalandi, Úkraínu og Bosníu. Leikmennirnir eru þungir og sterkir og spila töluvert öðruvísi bolta en slóvenska liðið (Ribnica).“

Hvernig metur þú möguleika liðsins að komast áfram í riðlakeppnina?
„Þetta verður gríðarlega erfitt verkefni gegn sterku liði. Ef við náum upp okkar leik þá tel ég að við eigum séns í þetta lið. Strákarnir eru vel stemmdir þrátt fyrir mikla törn undanfarið. Það er mikill áhugi fyrir leikjunum og það er fjölmennur hópur Selfyssinga að fara á útileikinn. Einnig vona ég að við fáum aukastuðning frá mínum gömlu félögum í Kielce,“ segir Þórir að lokum.

Forsala miða fer fram fimmtudaginn 22. nóvember kl. 18:30 í Hleðsluhöllinni. Forsala fyrir Platínumkorthafa hefst kl. 18:00, sama dag.