-6.3 C
Selfoss

Opinn samráðsfundur vegna stjórnunar- og verndaráætlunar um friðland að Fjallabaki

Vinsælast

Í dag, 12. nóvember kl: 17 – 19 verður haldinn opinn samráðsfundur vegna gerðar stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir friðland að Fjallabaki. Fundurinn fer fram í safnaðarheimilinu Hellu, Dynskálum 8.

Um fundarstjórn sjá Hákon Ásgeirsson og Þórdís Björt Sigþórsdóttir en þau eru bæði sérfræðingar hjá Umhverfisstofnun.

Í samtali við Þórdísi Björt kemur fram: „Samráðsfundurinn sem haldinn verður í dag er mikilvægur þáttur í gerð stjórnunar- og verndaráætlunar þar sem afurðir fundarins verða nýttar í að vinna að stefnu friðlandsins, 3. kafla áætlunarinnar. Mikilvægt er að þeir sem vilja koma skoðunum sínum á framfæri varðandi framtíð friðlandsins komi og leggi sínar hugmyndir á borðið.“

Þórdís Björt segir jafnframt að Umhverfisstofnun leggi mikla áherslu á samráð og hvetur fólk því að nýta sér fundinn ef það vill koma skoðunum sínum og hugmyndum á framfæri varðandi friðlandið og framtíð þess.

Þriðji kaflinn fyrrnefndi snýst um stefnu friðlandsins. Þar getur fólk lýst hugmyndum um takmörkun sem varðar umferð og dvöl, en í stjórnunar- og verndaráætlunum er heimild til að setja frekari sérreglur varðandi friðlýst svæði.

 

Fundardagskrá

17:00 – 17:20

  • Hvað er stjórnunar- og verndaráætlun?
  • Hvar erum við stödd í ferlinu?

 

17:20 – 18:00

Hópavinna

Viðfangsefni:

  • Svæðaskipting
  • Innviðir
  • Umsjón og fræðsla
  • Göngustígar/leiðir
  • Umferð önnur en gangandi
  • Ferðaþjónusta
  • Öryggismál

18:00-18:15

Kaffihlé

18:15-18:45

Áframhaldandi hópavinna

18:45-19:00

Samantekt og fundarslit

Nýjar fréttir