3.9 C
Selfoss

Grös rædd á sýningunni Halldór Einarsson í ljósi samtímans

Vinsælast

Á morgun, sunnudaginn 11. nóvember kl. 14:00, mun listamaðurinn Rósa Sigrún Jónsdóttir spjalla við gesti um verk sín á sýningunni Halldór Einarsson í ljósi samtímans í Listasafni Árnesinga í Hveragerði.

Rósa Sigrún Jónsdóttir.

Verk Rósu bera öll yfirheitið Grös og samastanda ýmist af þrívíðri heklaðri og málaðri blómabreiðu eða teikningum og útsaumi. Grös kallast á við það tímabil í lífshlaupi Halldórs Einarssonar þegar hann settist að í skógi í útjaðri Chicago og segist þar hafa kynnst „ákjósanlegri lífverum en mannfólkinu; blómum og trjám …“ Auk þess að bjóða upp á samtal við Rósu Sigrúnu munu fræðslufulltrúar safnsins, Hrönn Traustadóttir og Kristín Þóra Guðbjartsdóttir ganga um sýninguna, segja frá og svara spurningum gesta.

Með sýningunni er Listasafn Árnesinga að rýna í menningararfinn og lætur verk fjögurra núlifandi listamanna eiga í samtali við og varpa nýju ljósi á verk Halldórs á aldarafmæli fullveldis Íslands. Á sýningunni myndast óvæntar tengingar í ýmsar áttir, frá húsgögnum til bóka, handverki til náttúru, lækninga til stjórnmála, valdi til kvenna.

Sýningin Halldór Einarsson í ljósi samtímans hefur verið framlengd til 16. desember. Safnið er opið fimmtudaga til sunnudaga kl. 12–18. Aðgangur er ókeypis, líka á spjallið og allir velkomnir.

Nýjar fréttir