Ný aðferð hefur verið innleidd varðandi villi- og vergangsketti í Hveragerði. Félagsmenn Villikatta hafa tekið að sér að hlúa að þessum köttum í bæjarfélaginu og sporna við fjölgun þeirra.
Hveragerðisbær hefur bæst í hóp þeirra fjögurra sveitarfélaga sem hafa gert samning við Villiketti um að félagsmenn hlúi að villi- og vergangsköttum í bæjarfélögunum.
Á fundi bæjarráðs nýverið var samþykkt að fela bæjarstjóra að undirrita samning þess efnis á milli félagsins og bæjarins. Markmið samningsins er að hlúa að villi- og vergangsköttum í landi Hveragerðisbæjar, sporna við fjölgun þeirra og að uppfylla skyldur sem á sveitarfélaginu hvíla skv. ákvæðum laga nr. 55/2013 um velferð dýra.
Með undirritun samningsins hættir sveitarfélagið að handsama ketti en í staðinn eru það félagsmenn Villikatta sem fanga villi- og vergangsketti. Beitt er svonefndri TNR aðferð sem felst í því að kettir eru fangaðir, högnar eru geltir og læður teknar úr sambandi. Þeir jafna sig síðan í góðu yfirlæti áður en þeim er síðan skilað aftur á sinn upprunalega stað.
Félagsmenn hlúa einnig að köttunum með skjóli og matargjöfum og taka inn alla kettlinga sem finnast og nást. Allir kettir sem meðhöndlaðir eru af félagsmönnum Villikatta eru sérstaklega merktir á eyra og eru þannig auðþekkjanlegir.
Við undirritunina kom fram mikil ánægja beggja aðila og var ljóst að samstarfið er mikið tilhlökkunarefni fyrir alla.