-7 C
Selfoss

Þingmenn Suðurlands vilja ljúka gerð menningarsalar Suðurlands

Vinsælast

Níu þingmenn Suðurlands hafa lagt fram þingsályktunartillögu um menningarsal Suðurlands. Þingmennirnir eru: Ásmundur Friðriksson, Ari Trausti Guðmundsson, Birgir Þórarinsson, Karl Gauti Hjaltason, Oddný G. Harðardóttir, Páll Magnússon, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Smári McCarthy og Vilhjálmur Árnason. Í ályktuninni segir:
Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að leita samninga við Sveitarfélagið Árborg um að ljúka gerð menningarsalar Suðurlands á Selfossi. Samningurinn taki gildi árið 2019 og verði frágangi salarins lokið eigi síðar en við árslok 2020.

Greinargerð.
Fyrir nokkrum árum var ákveðið að byggja menningarhús á landsbyggðinni. Menningarhúsið Hof reis á Akureyri og Eldheimar í Vestmannaeyjum, hvort tveggja glæsilegar byggingar sem sinna vel því hlutverki sem þeim var ætlað á viðkomandi svæði. Þannig nýtist Hof Akureyringum og öðrum Norðlendingum en Eldheimar Eyjamönnum og gestum þeirra. Fjölmargir Sunnlendingar eins og aðrir hafa notið þess að sækja Eyjar heim og skoða sýningarnar í Eldheimum en þeir hafa ekki tækifæri til að nýta húsið. Sunnlendinga á fastalandinu vantar menningarhús fyrir fjölbreytta menningarstarfsemi á Suðurlandi, í höfuðstað þess, Selfossi.
Árið 1982 hóf Selfossbær að byggja hótel og félagsheimili sem nýta átti í þágu íbúanna. Menningarsalurinn stendur enn óinnréttaður með hallandi gólfi og á að geta rúmað 270 manns í sæti. Í salnum er stórt svið og gryfja fyrir hljómsveit. Að 36 árum liðnum stendur salurinn ófullbúinn í annars blómlegu húsi sem í er fjölbreytt þjónustustarfsemi, glæsilegt hótel, veitingastaðir, verslanir og þjónusta. Hótelið hefur verið stækkað mikið og fylgja því margs konar umsvif, fundir og samkomur sem þúsundir sækja á hverju ári.
Það er augljóst að menningarsalur af hóflegri stærð á svæði þar sem búa yfir tuttugu þúsund manns og yfir milljón manns heimsækja árlega er löngu tímabær. Fjölbreytt og lifandi menningarlíf er á Suðurlandi, kórar, leikfélög og ýmiss konar sviðslist er þar en skortir viðeigandi húsnæði. Það er ódýr og góður kostur að ljúka við gerð menningarsalar Suðurlands á Selfossi en talið er að verkefnið kosti á bilinu 300–400 millj. kr.
Sú skylda hvílir á herðum Þjóðleikhússins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands að fara um landið og flytja verk af efnisskrám sínum svo að eigendur, þjóðin og þar með Sunnlendingar, geti í heimabyggð notið hluta af því magnaða starfi sem þar fer fram. Hvað eftir annað þurfa þessar menningarstofnanir að sneiða hjá Sunnlendingum vegna aðstöðuleysis sem mundi gjörbreytast með tilkomu fullbúins menningarsalar á Selfossi. Einnig mundu með því skapast ný tækifæri fyrir sunnlenska kóra og áhugaleikfélög.
Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2018 lagði meiri hlutinn ríka áherslu á mikilvægi þess að mennta- og menningarmálaráðherra markaði stefnu um framtíð áætlana um eflingu menningarlífs og stuðning við menningarhús eða -sali. Í álitinu var sérstaklega vísað til menningarsalar Suðurlands á Selfossi. Í greinargerð með fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023 var enn fremur gert ráð fyrir að á tímabilinu yrði stuðlað að byggingu menningarhúsa á Fljótsdalshéraði og í Skagafirði í samvinnu við sveitarfélögin þar. Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar um fjármálaáætlunina kom enn fremur fram að í greinargerðinni hefði láðst að geta menningarsalar á Selfossi. Flutningsmönnum þykir því kjörið að úr verði bætt með samþykkt þessarar þingsályktunartillögu.

Nýjar fréttir