-6.1 C
Selfoss

Kolaofninn er þungamiðjan í eldhúsinu á Krisp

Vinsælast

Hjónin Sigurður Ágústsson matreiðslumeistari og Birta Jónsdóttir framreiðslumeistari tóku við rekstri veitingastaðarins Menam 17. júlí sl. Þau keyptu reksturinn af Kristínu Árnadóttur sem hafði rekið staðinn frá árinu 1999.

Þau hjónin ráku staðinn undir merki Menam út september. „Við gerðum þetta bæði fyrir Selfyssinga og aðra viðskiptavini, til að gefa þeim tækifæri á að kveðja staðinn, og til að kaupa okkur smá tíma svo við þyrftum ekki að loka á miðju sumri,“ segir Birta. „Þarna fengum við tækifæri til að vera með rekstur í gangi á meðan við vorum í því ferli að opna nýjan stað. Við sömdum um það við Stínu strax í upphafi að fá lánað vörumerkið Menam þangað til að við værum tilbúin að opna Krisp en eftir það væri það í hennar eigu þar sem það var aldrei á dagskránni hjá okkur að nota vörumerkið Menam áfram. Við opnuðum svo undir nafninu Krisp Restaurant 6. október sl.“ segir Sigurður.

Áhersla á gæða hráefni
Aðal áherslurnar hjá þeim Sigurði og Birtu á nýja veitingastaðnum er gæða hráefni, þ.e. allt í senn, grænmeti, kjöt og fiskur. „Við bjóðum upp á bragðgóðan mat, að miklu leyti kolagrillaðan, ásamt góðum kokteilum og öðrum drykkjum“, segir Sigurður. „Svo erum við líka með gott úrval af víni með matnum en vínlistinn saman stendur að mestu leyti af okkar uppáhalds vínum“.

Spennt fyrir kolaofninum
„Þegar við ákváðum að halda í þetta verkefni fórum við strax að leita okkur að kolagrilli því við vildum hafa þennan möguleika að elda steikur við háan hita og þá helst við opinn eld. Við vissum af þessum Josper kolaofni, sem Bako Ísberg er að selja, en við vissum líka að hann væri ekki gefins þannig að ég var búinn að afskrifa hann alveg. Þegar við mættum upp í Bako, til að fá tilboð í eitt og annað hvíslaði Birta að mér, þegar ég var að tala við sölumanninn, hvort ég vilji ekki fá tilboð í þennan ofn. Ég gerði það en það kom svo á daginn að ofninn var alveg jafn dýr og við héldum í upphafi. En þá vorum við bara orðin svo spennt fyrir honum að það var ekki aftur snúið. Það endaði með því að við ákváðum bara að setja Josperinn í fyrsta sætið og lögðum aðrar fjárfestingar til hliðar til þess að geta fjárfest í honum. Við tókum bara svolítið sénsinn og við sjáum alls ekki eftir því í dag,“ segir Sigurður.

Bragðmeiri matur
„Ofninn er þungamiðjan í eldhúsinu hjá okkur og stór hluti af vörumerkinu okkar,“ segir Birta. „Í ofninum er hægt að elda nánast hvað sem er við 300–400°C og hann gefur þetta góða viðarkolabragð af matnum. Ef við erum t.d. að elda kjöt með mikilli fitu þá bræðir ofninn hana algjörlega sem gerir okkur kleift að nota minna magn af smjöri og olíu í staðinn. Útkoman er því miklu bragðmeiri matur en ef við værum að steikja hann á pönnu eða rafmagnsgrilli við lægri hita. Við setjum því allt sem við mögulega getum í ofninn,“ segir Sigurður.

Steikur og margt fleira

Aðspurð um hvað sé á matseðlinum segir Birta erfitt að lýsa því nákvæmlega. „Við sérhæfum okkar náttúrulega í kjöti og erum í þeim skilningi steikhús. En við viljum líka að fólk geti komið og fengið sér eitthvað annað en bara steik. Það er því alveg hægt að fá sér salat, borgara eða einhverja léttari rétti ef þannig liggur á manni. Við lögðum líka upp með það í upphafi að halda í ákveðin asísk brögð, bæði vegna þess það er eitthvað sem við höfum alltaf verið hrifin af og líka vegna þess að það tengist sögu hússins. Það leynist því smá asískt fusion hjá okkur á Krisp. Til dæmis notum við sojasósu, hrísgrjónaedik, sake og alls konar svoleiðis í marineringar sem er kannski aðeins öðruvísi. Við erum því steikhús með smá tvisti.“

Fólk mælir með okkur
„Viðtökurnar hafa verið mjög góðar, svo góðar að við höfum ítrekað þurft að vísa fólki frá vegna þess að það er einfaldlega fullt út úr dyrum. Selfyssingar hafa tekið mjög vel á móti okkur og bara allir sem hafa lagt leið sína hingað. Skemmtilegast finnst okkur að heyra hvað það eru margir sem eru að koma eftir meðmælum frá öðrum sem hafa komið hingað. Það er líka alltaf gaman að sjá þegar fólk er að koma aftur og aftur, jafnvel sama daginn. Þá man maður afhverju maður fór út í þessa vitleysu,“ segja þau Sigurður og Birta.

Nýjar fréttir