-6.7 C
Selfoss

Leiksýning sem á skilið lof og prís

Vinsælast

Á vit ævintýranna er hvorki meira né minna en 84. verkefni Leikfélags Selfoss á sextíu árum. Geri nú aðrir betur. Leikfélagið og starf þess vitnar um svo gegndarlausa elju, sköpunargleði og metnað að það hálfa væri nóg. Selfyssingar vita vonandi flestir hvílíkan dýrgrip þeir eiga í gamla og notalega leikhúsinu á syðri bakka Ölfusár. Þeir sem það vita mæta að jafnaði á sýningar félagsins. Starf þess er líka útrásarstarf (þó ekki í anda fjárglæframanna) heldur er hverju siðmenntuðu samfélagi nauðsyn að skapa vettvang eins og leikhús er til þess að halda í og rækta það sem gerir okkur mennsk. Leikhús er þannig staður og Leikfélag Selfoss er þannig félag.

Leiksýningin er unnin upp úr misgömlu frásagnarefni, einu sem við köllum ævintýri um Litla Kláus og stóra Kláus, öðru sem kallast þjóðsaga um Sálina hans Jóns míns og Davíð Stefánsson gerði ódauðlega í Gullna hliðinu og það þriðja er barnasaga í bundnu máli frá miðri 20. öld og heitir Enn hvað það var skrýtið eftir Pál J. Árdal og má teljast umvöndunarsaga að hluta og var um tíma ein mest lesna barnasaga á Íslandi. Þetta er afbragðsgóð sýning þar sem textinn kemst vel til skila, fluttur með hægð og blæbrigðum, af innlifun og áreynsluleysi eins og einkennir góða sögumenn og leikara. Búningar að mestu svartir og rauðir lita frásögnina og lyfta henni inn í dramatíska veröld og trúðanef og tónlist (nóta bene frumsamin) fylla áhorfandann unaði og ryþma, látbragð og liprar hreyfingar vitna um öguð vinnubrögð og hugmyndaríka útfærslu. Ljós og leikmynd og allir litlu og litríku leikmunirnir sem koma upp úr pússinu mega svo kallast punkturinn yfir i-ið. Ekki síst eru það litlu hlutirnir sem gera gæfumuninn í þessari sýningu. Öll smáu atriðin sem leika svo stórt hlutverk.

Því það sem gerir þessa sýningu að leikhúsi er ekki efniviðurinn sem slíkur heldur hvernig er unnið úr honum. Það gerir leikstjórinn Ágústa Skúladóttir af fagmennsku og listrænni kunnáttu. Hún sækir örugglega hugmyndir víða og langt út fyrir hefðbundið textaleikhús því textinn í þessu verki er ekki yfirskipaður öðrum þáttum leiksýningarinnar. Frekar mætti segja að hann væri jafnskipaður og er látbragð og persónusköpun að einhverju leyti sótt til ítalskrar endurreisnar í Comedia del arte. Þetta er því öðrum þræði sjónrænt leikhús sem mótar gamlan efnivið að sínum kröfum. Hugsið ykkur þennan efnivið sem víða má finna í rykföllnum bókum upp í hillu en þegar alvöru leikhúsfólk tekur þær niður úr hillunni og setur sköpun sína í þessar sögur fæðist barn.

Um innihaldið langar mig að segja að það er móralskt á sinn hátt og á vissulega erindi við okkur í dag. Að því leyti er það sígilt og svo er það líka fyndið. Það er fyndið og einlægt, grimmt og ljótt, háðskt og með góðu hjarta eins og ferðalag fátæku alþýðukonunnar á fund hins hæsta sem býr í hæstu hæðunum með lyklavöldin eins og misgáfaðir stjórnmálaleiðtogar. Á endanum snýr hún á hann því alþýðan snýr alltaf á valdsmennina þegar þeir sýna henni yfirgang og hroka. Það sama má segja um innihald Kláusar sögunnar. Sá stóri sýnir þeim litla yfirgang og kúgun. En sá litli sigrar að lokum. Sá stóri er bara stór af því að hann telur sig sjálfur vera það.

Að lokum vil ég hæla leikstjóra fyrir vandaða leikstjórn, agaða og skapandi í senn. Öllum leikhópnum vil ég hrósa fyrir túlkun og þá alúð sem lögð er í verkið. Þetta er mjög góð sýning sem á skilið lof og prís. Maður kemst þó ekki hjá því að minnast á Birtu Sólveigu Söring í hlutverki Litla Kláusar. Hún er vissulega senuþjófur. Guðný Lára og Stefán Örn, Emma Guðmundsdóttir, Jónheiður Ísleifsdóttir og Halldóra Öfjörð eiga aukin heldur heiður skilinn fyrir sitt framlag og góðlátleg myndin af Guðfinnu Gunnarsdóttur í hlutverki íslensku alþýðukerlingarinnar í Sálinni hans Jóns míns klædd í rykfrakka með rautt nef er afar notaleg.

Jón Özur Snorrason.

Nýjar fréttir