Árlegir tónleikar kirkjukóra í Suðurprófastdæmi verða haldnir í Skálholtskirkju, á minningardegi um Jón Arason biskup, miðvikudagskvöldið 7. nóvember kl. 20.00.
Þessi dagur er minningardagur um Jón Arason biskup og er þetta fjórða árið sem kirkjukórar prófasdæmisins koma saman til söngs í Skálholtskirkju.
Í ár flytja fjórir kórar fjölbreytta dagskrá, bæði einir og í samsöng. Helsta samsöngsverkefni kóranna nú eru þættir úr Sálumessu eftir franska tónskáldið Gabriel Fauré. Guðmundur Óli Gunnarsson stjórnar og Jón Bjarnason leikur á orgelið. Þátttökukórar eru Skálholtskórinn, stjórnandi Jón Bjarnason, Kór Selfosskirkju, stjórnandi Ester Ólafsdóttir, Kór Odda- og Þykkvabæjarkirkju, stjórnandi Kristín Sigfúsdóttir og Kór Hruna- og Hrepphólakirkju, stjórnandi Stefán Þorleifsson.
Vígslubiskupinn í Skálholti, sr. Kristján Björnsson, stýrir dagskránni sem er skipulögð af Margréti Bóasdóttur, söngmálastjóra þjóðkirkjunnar. Héraðssjóður Suðurprófastsdæmis styrkir þetta verkefni og eru allir hjartanlega velkomnir í Skálholtskirkju.