2.8 C
Selfoss
Home Fréttir Innanbæjarstrætó – Já, takk!

Innanbæjarstrætó – Já, takk!

0
Innanbæjarstrætó – Já, takk!
Brigitte Bjarnason.

Stefnan í skipulagsmálum í dag virðist vera að færa þjónustufyrirtæki eins og pósthús, matvöruverslun, heilsugæslustöð o.fl. langt frá íbúðabyggðinni. Það þýðir að við erum háð bílum til að sækja pakka, kaupa í matinn eða komast til læknis. Samt er okkur ráðlagt að nota bílinn sem minnst vegna umhverfissjónarmiða eins og loftslagsbreytinga og til að minnka umferðina. En hvernig kemst fólk sem vill ekki nota bíl, hefur ekki efni á því að reka einn eða fleiri bíla eða treystir sér ekki að keyra vegna aldurs eða af öðrum ástæðum leiðar sinnar? Nú þegar pósthúsið á Selfossi ætlar að flytja í útjaðar bæjarins tekur það t.d. fólk sem býr í hinu svokallaða græna hverfi, sem teygir sig í átt að gámasvæðinu, meira en hálftíma að ganga þangað. Það þýðir eins til eins og hálfs tíma ganga til að póstleggja eitt bréf. Að komast á heilsugæslustöðina veik og í hvaða veðri sem er heldur engin skemmtiganga. Fólk sem á bíl skutlar börnum sínum hingað og þangað og notar bílinn jafnvel bara í innanbæjarakstur til að komast í vinnu, á bókasafnið, til sýslumanns eða út í búð. Aldraðir eða fólk með takmarkaða hreyfigetu þarf að betla í öðrum til að skutla sér eða setjast sjálft á  bak við stýrið þó að heislufarsástand þess geti valdið hættu í umferðinni.

Selfoss stækkar hratt. Léglegar innanbæjarsamgöngur ýta undir einangrun fólks. Er ekki kominn tími til að bjóða upp á innanbæjarstrætó sem tekur hring í gegnum íbúðahverfin með viðkomu í Bónus, sundlauginni og heilsugæslustöðinni svo eitthvað sé nefnt? Samtímis mætti laga gangstéttir og búa til hjólastíga fyrir fólk sem kýs að hjóla eða þarf að nota hjálpatæki eins og göngugrind. Það er gott að búa á Selfossi en allir eru sammála um að draga þurfi úr bílaumferð innan bæjarins. Með því að bjóða upp á, helst ókeypis, innanbæjarstrætó myndi Selfoss sýna frábært fordæmi hvað varðar umhverfismál og bæta verulega þjónustu við alla bæjarbúa unga sem aldna. Innanbæjarstrætó – já, takk.

Brigitte Bjarnason